131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:07]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða löggjöf sem er afleiðing kvótasetningar á sóknarbáta. Ég tel fróðlegt að fá upplýsingar í framhaldi af þessari kvótasetningu hæstv. ráðherra hverjar afleiðingarnar voru af þessari aðför hæstv. sjávarútvegsráðherra að byggðunum í Norðvesturkjördæmi, hvort það hafi gengið eftir sem við í Frjálslynda flokknum spáðum, þ.e. að aflaheimildir mundu færast til og útgerð minnka. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvaða afleiðingar þetta hafði fyrir sjávarbyggðirnar. Mér finnst full þörf á því að fá þetta fram í umræðuna.

Ég tel einnig fulla þörf á að rifja upp ákveðin svik þingmanna stjórnarflokkanna sem voru búnir að lofa því, m.a. á opnum fundi á Ísafirði, að sett yrði gólf í dagabátana og umræddar trillur yrðu ekki kvótasettar. Ég gat ekki skilið þá betur en svo, hv. þingmenn Einar Odd Kristjánsson, Einar Kristin Guðfinnsson og síðast en ekki síst Kristin H. Gunnarsson.

Ég sakna eins manns í umræðunni. Ég vissi ekki betur en hann væri á lista yfir ræðumenn. Það er hv. þingmaður Hjálmar Árnason, sjálfur formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Fyrir síðustu kosningar gaf hann einmitt út þá yfirlýsingu að setja ætti gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu. Síðan, eftir að kjósendur ganga til atkvæða og kjósa hann í ljósi sinna yfirlýsinga, þegar hann er sestur á þing þá svíkur hann umrædd loforð. Mér finnst það alvarlegt. Ég skil í rauninni ekki hvað manninum gengur til.

Ég minntist á það fyrr í umræðunni að hann hefði gefið út mjög villandi yfirlýsingar um Símasöluna þannig að hv. þingmanni virðist ekki alls varnað. Ef menn skoða hlutlaust þessa fiskveiðistjórn undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, fara bara yfir söguna og skoða aflann þá verður að segjast eins og er að Sjálfstæðisflokknum hefur algerlega mistekist. Þorskaflinn nú er helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins. Samt halda menn áfram að reyna að halda í þessa vitleysu. Ég fór yfir það um daginn að á jafnlöngu tímabili hefur aldrei veiðst jafnlítið af þorski, þ.e. ef það er farið aftur í sögunni, alveg aftur til þess tíma að Íslendingar fengu sæmilegan skipakost, alveg aftur til 1918 og meðtalin þau ár sem var varla hægt að komast á sjó, a.m.k. ekki útlendingar, þ.e. stríðsárin. Það er mjög sérstakt að menn séu jafnvel með þessari lagasetningu og annarri að vera að festa í sessi eitthvað sem hefur ekki skilað sér. Mér finnst það mjög alvarlegt. Þess vegna óska ég eftir því, og það væri fróðlegt, að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði okkur grein fyrir því hvernig hann metur árangurinn. Nú hafa menn verið með alls konar reiknireglur og verið að spá langt fram í tímann, jafnvel áratugi og ekkert gengur eftir. Samt sem áður halda menn í þetta. En ekkert gengur. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra ásamt samþingmönnum sínum í Sjálfstæðisflokknum og síðast en ekki síst framsóknarmenn sem þykjast stundum vera í landsbyggðarflokki og vilja landsbyggðinni vel verði í umræðu hér um sjávarútvegsmál að svara fólkinu á Stöðvarfirði og á Hofsósi sem nú á von á að ganga atvinnulaust þessari spurningu: Á ekki að rétta þessu fólki hjálparhönd? Það eina sem gerðist, eina yfirlýsingin sem heyrðist frá ráðherra var sú að hann dáðist gífurlega að Samherjamönnum vegna þess að þeir stóðu svo vel að andlátsfrétt fyrirtækisins á Stöðvarfirði. Mér finnst þetta alvarlegt. Menn eiga ekki að koma svona fram við fólk sem vinnur í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, þ.e. svipta það vinnunni og segja eitthvað í líkingu við hin fleygu orð „shit happens“. Kemur þetta hæstv. sjávarútvegsráðherra ekkert við? Svo virðist ekki vera. Hann hendir að vísu einhverjum byggðakvótum við og við inn í þessi þorp, t.d. á Hofsósi þar sem ég þekki vel til, þar sem menn eru látnir slást um byggðakvótana og rísa þá upp alls kyns deilur. Ég hefði talið nær að leyfa þá þessum útgerðarmönnum að fá að njóta heimahaganna og sækja þá á næstu fiskimið t.d. við Hofsós. Ég tel að fiskstofnunum stafaði ekki hætta af því. En ég er sannfærður um að byggðin á Hofsósi mundi standa styrkari á eftir. Eru menn svona kreddufullir að halda í kerfi sem engu skilar eins og sýnt hefur verið fram á?

Það hefur komið fram að Vestfirðir hafa tapað 39% af störfum sínum í fiskvinnslu. Kemur þetta þingmönnum stjórnarflokkanna ekkert við? Það mætti halda það. Alla vega sjást þeir ekki í umræðunni um sjávarútvegsmál. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að t.d. formaður sjávarútvegsnefndar láti sjá sig. En það gerist ekki. Síðan þegar búið er að henda inn þessum byggðakvótum þá eru byggðirnar að bisa við að búa til einhverjar úthlutunarreglur. Sumar eru allkostulegar svo sem eins og þær sem vinstri mennirnir á Siglufirði bjuggu til og eru nýbúnir að skila af sér. Um það má lesa á vefnum siglo.is. Það mætti halda að kommarnir í Austur-Þýskalandi hefðu ekki getað staðið betur að þessu. Það er alveg með ólíkindum hvernig siglfirsku vinstri mönnunum tekst að búa til úthlutunarreglur sem í raun ganga út á það að færa þeim mestan atvinnurétt sem hafa mestan rétt fyrir. Það væru fróðlegt að fá að vita hvort þetta sé eftir einhverri forskrift úr sjávarútvegsráðuneytinu.

Það hefur verið minnst á 5% regluna, að menn megi landa 5% umfram aflamark. Ég hef verið á fundum víða um land og menn telja að ef prósentan yrði hækkuð skilaði það auknum verðmætum á land og ég tel að … (Gripið fram í.) Ja, hvers vegna látum við ekki reyna á það? Eru einhver rök á móti því? Það væri óskandi að hæstv. sjávarútvegsráðherra gæfi okkur einhverjar skýringar á því hvers vegna við eigum að halda okkur við þessi 5% en ekki að hækka þau upp í 7%. Eru það einhver fiskifræðileg eða efnahagsleg rök eða hvers vegna er þessi tala 5%?

Ég tel að við séum komin að þeim tímapunkti í umræðu um byggðamál og sjávarútvegsmál að menn verði að staldra við og skoða hvort ekki sé rétt að veita byggðunum einhverja heimild til að nýta sín nánustu fiskimið. Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir því að halda svo fast í eitthvert kerfi sem skilar engu. Það er í raun komið að þeim tímapunkti, a.m.k. fyrir þá fjölmörgu sem missa störf á Stöðvarfirði og Hofsósi, að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari fólkinu, svari fólkinu á Raufarhöfn hvers vegna það fái ekki að nýta fiskimið sín. Hvaða rök séu fyrir þessari vitleysu.

Ég ætla að láta máli mínu lokið nú en skora á hæstv. ráðherra að svara því hverju þessi lög hafi náð fram, hvaða breytingar hafi orðið í útgerðarmunstri við lagasetninguna sem gerð var á síðasta þingi.