131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:13]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt og nauðsynlegt að þetta fjármagn renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, sjóðs sem starfar orðið á eigin forsendum undir sjávarútvegsráðherra, hvort það sé ekki rétt að það renni bara til verkefna á vegum sjávarútvegsmála og sé úthlutað af Alþingi.

Ég get heldur ekki séð að það sé neitt rétt í því að það sé bundið í lögum að fjármagninu sé varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Það eru ýmis önnur verkefni sem hægt væri að vinna að án þess að gert sé að skilyrði í lögum að Hafrannsóknastofnun vinni að þeim verkefnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þarna sé ekki verið að stíga mjög þröng og skammsýn skref, það sé miklu réttara að þetta fari og sé til úthlutunar á meiri alhliða hátt.

Fram kemur að sjóðurinn varð til m.a. vegna framlaga frá fiskvinnsluhúsum. Gæti ekki verið rétt að sjóðurinn sem á að nema 300–400 millj. kr. færi í að styðja við minnstu fiskvinnsluhúsin sem berjast í bökkum vegna erfiðrar stöðu gengis og stjórn fiskveiða, t.d. eins og á Hofsósi og Stöðvarfirði? Mér finnst allt of þröngar skorður settar varðandi ráðstöfun fjárins í lögunum.