131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:30]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem við tökum nú um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er á vissan hátt framhald af þeirri umræðu sem við tókum í sal hins háa Alþingis í maí sl. Verið er að leggja til að þeir peningar sem eftir verða í Þróunarsjóðnum, um 400 millj., renni heilar og óskiptar í Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Eins og segir hér orðrétt og bent hefur verið á: „... andvirði þeirra varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.“

Ég vil fyrir það fyrsta gera þá athugasemd að ég tel alveg nægilegt í texta 1. gr. frumvarpsins að sagt verði: Andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Það þarf ekki að tilgreina sérstaklega að rannsóknirnar eigi að fara fram á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Það er alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra benti á að við höfum margoft sagt að það þurfi aukið fé í hafrannsóknir og ég sagði það nú síðast áðan og stend við það. En það er ekki þar með sagt að eina stofnunin sem sé hæf til að stunda hafrannsóknir á Íslandi sé Hafrannsóknastofnun. Það eru margir aðrir mjög hæfir vísindamenn hér á landi sem starfa við aðrar stofnanir og líka hæfir vísindamenn sem starfa sjálfstætt sem gætu sinnt hafrannsóknum. Ég tel að það væri mjög gagnlegt fyrir framgang og framþróun vísinda hér á landi, hafrannsókna og fiskifræði m.a. að við héldum þeim möguleika opnum að hægt væri að veita fé m.a. úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til fleiri aðila en Hafrannsóknastofnunar sem er jú ríkisstofnun. Heilbrigð samkeppni er alltaf af hinu góða og það gildir líka um vísindarannsóknir og það ætti hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera sér grein fyrir.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson minntist á að þörf sé á að veita fé í að sinna því að halda við gömlum skipum, sem oft á tíðum eru merkar minjar, og ég get tekið undir það. Maður hlýtur að nota tækifærið til að minna á að það var samþykkt í þinginu þingsályktunartillaga í maí árið 2000 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að undirbúa tillögu um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og að Þróunarsjóður sjávarútvegsins ætti að taka þátt í því. Það er á vissan hátt rökrétt að peningarnir séu alla vega að einhverjum hluta notaðir í þetta. Það vantar mikla peninga til þess að sinna þessu mjög svo verðuga verkefni.

Því miður hefur ekkert orðið úr efndum þeirrar þingsályktunar þótt liðin séu hartnær fimm ár og á sama tíma hefur fornskipastóli landsmanna, ef svo má segja, náttúrlega hrakað enn meir en orðið var og er það náttúrlega mjög miður. Ég flutti hér langa ræðu um þetta í maí sl. og sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka hana hér og nú aftur í smáatriðum.

Ég vil að lokum benda á að ég sendi inn fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrr í vetur einmitt um Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þar spurði ég m.a. hvenær sjóðurinn hefði tekið til starfa og hverjir sitji í stjórn hans. Sjóðurinn er nýr, hann var stofnaður með lögum 20. desember árið 2003 og í honum sitja þrír embættismenn sem allir starfa hjá sjávarútvegsráðuneytinu, sem sagt undirmenn hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Nú er hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki í salnum, hann er horfinn. Ég vona að hann heyri til mín þannig að hann komi hingað sem fyrst því mig langar til að spyrja hann að því hvort hann telji ekkert athugavert við að honum einum nánast séu falin algjör yfirráð yfir sjóði sem getur útdeilt verulega háum fjárhæðum til tiltekinna verkefna sem eiga eingöngu að fara fram innan veggja Hafrannsóknastofnunar, þ.e. fyrir þá peninga sem nú eru í Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Á yfirliti í svari frá hæstv. sjávarútvegsráðherra til mín fyrr í vetur sést að eitthvað af peningum hefur líka runnið til Fiskistofu til eftirlitsstarfa, en það hafa líka runnið peningar úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til Hafrannsóknastofnunar. En — og ég hef gagnrýnt það í heyranda hljóði og geri það enn — ég tel mjög varhugavert að við felum einum manni, sem er hæstv. sjávarútvegsráðherra, án þess að ég ætli neitt að fara að tala illa um hann með neinum hætti, þá tel ég mjög varhugavert að einum manni séu nánast fólgin algjör yfirráð yfir eins stórum sjóði, því mér sýnist að sjóðurinn geti hlaupið á hundruðum milljóna í framtíðinni ef fram fer sem horfir.

Mig langar þess vegna, virðulegi forseti, til að beina nokkrum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra, hvort hann sem talsmaður frelsis, hann hefur lýst því yfir að hann sé frjálshyggjumaður og ég býst við að það gildi líka um vísindi og rannsóknir, sé hlynntur því að það komi punktur á eftir „til hafrannsókna“, í 1. gr. frumvarpsins. Við séum ekki eingöngu að takmarka þetta við Hafrannsóknastofnun heldur reynum að nota peningana til að ýta undir frelsi og heilbrigða samkeppni í hafrannsóknum hér við land.

Spurning númer tvö er hvort hann telji ekki varhugavert að hann ráði einn yfir þessum mikla sjóði framtíðarinnar.

Þriðja spurning er hvort hann teldi ekki að það væri alla vega einnar messu virði og skoðandi að veita þó ekki væri nema eitthvað af peningunum í að reyna að viðhalda og jafnvel bjarga þeim mikla menningararfi þjóðarinnar sem er falinn í gömlum skipum, sem eru því miður að grotna niður víða um land einmitt vegna fjárskorts.