131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:43]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við eigum að fara varlega í að meta gæði þjónustu í ljósi fjárframlags til hennar. Ég hef vakið athygli á því áður að dýrasta heilbrigðiskerfið í heiminum er bandaríska kerfið. Hlutfallslega eru einkareknar stofnanir, öldrunarstofnanir hér á landi miklu dýrari fyrir skattborgarann en samfélagslega reknar stofnanir. Þetta er staðreynd.

Ef við skoðum málið hins vegar með tilliti til fjárútláta stjórnvalda mætti ætla að þjónustan hafi batnað að sama skapi, en það er ekki þannig.

Ég er að vekja athygli á því að hlutfallslega hefur minni fjármunum verið varið til geðheilbrigðismála innan heilbrigðiskerfisins en annarra. Í því sambandi vísa ég í skýrslur sem reiddar hafa verið fram af hálfu ráðuneytisins og Landspítala – háskólasjúkrahúss og er m.a. vitnað í í greinum eftir Tómas Helgason, prófessor í geðsjúkdómum.