131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:47]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Það er ekki nýlunda að hér skuli stjórnarandstaðan hefja umræðu um Írak. Hvert er tilefnið að þessu sinni? Það er viðtalið við hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpi í gær þar sem hann fór ítarlega yfir málavöxtu eins og gert hefur verið margsinnis í fjölmiðlum og hér á hv. Alþingi. Það kom ekkert nýtt fram í því viðtali en það gefur stjórnarandstöðunni enn einu sinni tilefni til að hefja umræðu um það.

Ég tek eftir því, hæstv. forseti, að enginn fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað minnist einu orði á að það fóru fram kosningar í Írak þrátt fyrir hótanir hryðjuverkamanna um að sprengja og skjóta þá sem ætluðu sér að sækja kjörstað. Enginn tók fram að þrátt fyrir þetta hafi kosningaþátttaka verið yfir 60% og það færi fram mjög öflugt uppbyggingarstarf í Írak. Enginn hefur minnst á það. Það vekur athygli hve hv. stjórnarandstaða virðist föst í fortíðinni, hve hv. stjórnarandstaða virðist föst með sína pólitík austur í Asíu í fortíðinni. Er ekki orðið tímabært að hv. stjórnarandstaða fari að ræða t.d. um stjórnmál á Íslandi, innanlandsmál? (Gripið fram í.) Er ekki orðið tímabært að hin virðulega stjórnarandstaða fari að ræða örlítið um framtíðina? (Gripið fram í.) Og er ekki orðið tímabært að stjórnarandstaðan, hin virðulega, hætti að draga hin hörðu og grimmu átök innan Samfylkingarinnar inn í störf Alþingis? Er það ekki orðið tímabært?