131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:21]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að verulegar sveiflur á gengi gjaldmiðla, mikil hækkun á gengi krónunnar, ég tala nú ekki um viðvarandi hátt gengi krónunnar veldur sjávarútveginum erfiðleikum. Spurningin er hins vegar sú hve miklum erfiðleikum þetta muni valda og spurningin er einnig sú hvernig greinin geti brugðist við þessum nýju aðstæðum og eins hverjar afleiðingar það muni hafa í för með sér.

Ljóst er að einhvers staðar eru þolmörk hjá greininni, hversu hátt gengi hún þolir áður en menn fara að hugsa til þess að binda skipin. Ekki ætla ég að gera því skóna að verið sé að hugsa um það þessa dagana. En af þeim sökum sem ég hef farið yfir hef ég skipað sérstaka nefnd, svonefnda hágengisnefnd undir forustu Friðriks Más Baldurssonar til að svara þessum spurningum og öðrum tengdum og vonast ég til að hún muni skila af sér í næsta mánuði.

Spár greiningardeildar bankanna og fjármálaráðuneytisins um þróun gengis og EBITA afkomu fyrirtækjanna benda hins vegar til jákvæðrar þróunar í þessum efnum á næstu mánuðum og missirum. Allt bendir til þess að afkoma skráðra sjávarútvegsfyrirtækja á síðasta og þessu ári hvað EBITA varðar verði mjög svipuð eða nánast sú sama og hún var á árinu 2003. En þó er full ástæða til, án þess þó að við efumst um skynsemi markmiða Seðlabankans, að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að forðast miklar og snöggar breytingar sem gera aðlögun greinarinnar erfiðari. Ef breytingarnar gerast hægt er auðveldara fyrir fyrirtækin að aðlagast, bæði hvað varðar innra starf og eins að ná fram breytingum á verði í öðrum gjaldmiðlum.

En hver er ástæða hins háa gengis? Ástæða fyrir lágu gengi dollarans ræðst ekki af aðstæðum hér innan lands. Það eru allt aðrar aðstæður sem ráða því og aðstæður sem við höfum lítið um að segja. Hins vegar er staða evrunnar, pundsins og annarra gjaldmiðla reyndar sterkari en dollarans þó að þeir hafi lækkað gagnvart krónunni.

Vitnað var til fundarins á Hótel Nordica fyrir áramótin og fannst mér hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki vera alveg nákvæmur í frásögn sinni af fundinum þó ekki ætli ég að halda því fram að hann hafi sagt þar ósatt. Það kom hins vegar fram að hátt gengi krónunnar um þessar mundir væri ekki vegna stóriðjunnar heldur vegna annarra aðstæðna í efnahagslífinu. Hins vegar benti ýmislegt til þess að krónan gæti verið áfram há vegna þess að hversu miklu leyti stóriðjan gæti haft áhrif á innstreymi gjaldeyris og umsvif á þessu ári. Hins vegar benda spár greiningardeildanna og fjármálaráðuneytisins núna til þess að gengi krónunnar muni aftur lækka á þessu ári þannig að staðan eins og hún er í dag er vegna góðra aðstæðna og jákvæðra breytinga í efnahags- og viðskiptalífi okkar. Það að gengið haldist hátt fram eftir árinu væri þá vegna stóriðjunnar, en samt spá menn því að gengið muni lækka þegar líður á árið.

Hins vegar er ljóst að ekki er vandalaust að stýra efnahagslífinu þegar vel árar. Þess vegna var mjög athyglisvert að heyra hugmyndir hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, varaformanns Samfylkingarinnar, um hagræðingarkröfur, minnkun á framkvæmdum og sparnaðartillögur því það hefur ekki mikið heyrst af slíkum tillögum frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar á hinu háa Alþingi, en þar sem hún er nú komin á þing og stendur í formannsslag innan Samfylkingarinnar er þess væntanlega að vænta að hún geri betur grein fyrir þeim tillögum.

Hún minntist einnig á upptöku evrunnar en staðan gagnvart evrunni, ef við værum með hana, væri sú að við værum í sömu stöðunni gagnvart dollarnum því dollarinn hefur líka lækkað gagnvart evrunni. Sama getur komið upp þá gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem eru sjálfstæðir gagnvart evrunni að þeir geta breyst gagnvart henni alveg á sama hátt þannig að jafnvel þótt við værum með evruna hefðum við ekki sloppið við ýmsa þá erfiðleika sem gengisbreytingarnar hafa haft í för með sér að undanförnu.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er ekki vandalaust að stýra hagkerfinu um þessar mundir en það er nauðsynlegt að taka tillit til útflutningsgreinanna, þó þannig að við missum ekki niður stöðugleikann því að ef við missum niður stöðugleikann getur raungengið hækkað af öðrum orsökum.