131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:37]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það sem sumir kalla ofurgengi íslensku krónunnar veldur útflutningsgreinum okkar vanda um þessar mundir. Það er ljóst. En fjármálaspekingar keppast nú við að lýsa því yfir að þessi staða muni ekki standast til lengdar og menn keppast við að spá því að gengi krónunnar muni lækka og leiðréttast en spurning er hvenær það muni gerast svo einhverju nemi. Það má því draga þá ályktun að gengisstaða krónunnar nú sé óeðlileg og fyrir því séu ekki rökréttar forsendur.

Á sama tíma má spyrja hvort einstakar útflutningsgreinar, svo sem í sjávarútvegi, muni standa af sér þessa stöðu þar til úr rætist. Hafa ber í huga að vegna jákvæðrar þróunar í rekstrarumhverfi atvinnufyrirtækjanna undanfarin ár í stjórnartíð núverandi stjórnarflokka er ljóst að þau eru almennt betur í stakk búin til að takast á við þessar aðstæður en áður var. Hins vegar er ljóst að þetta getur ekki staðist mjög lengi. En fyrir þessari stöðu eru auðvitað ýmsar ástæður. Ein er sú sem má rekja til þróunar í verðlagsmálum og þess að Seðlabankinn hefur beitt sínum aðferðum til þess að verðbólgumarkmið hans haldi. Allt er þetta umdeilanlegt. En það er athyglisvert að einn helsti hvati til hækkunar á vísitölu neysluverðs að undanförnu er verðbólgan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu en þensluáhrif á stórframkvæmdum á Austurlandi virðast ekki eins mikil og gert var ráð fyrir.

Það kemur fram í upplýsingum frá Hagstofunni að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,21% frá fyrra mánuði en vísitala neysluverðs án húsnæðis hafi lækkað um 0,26% frá því í janúar. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,3%. Það má því færa rök fyrir því að verðbólgan á fasteignamarkaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sé einn orsakavaldur erfiðrar stöðu útflutningsgreina sem eru helstu undirstöður byggða og atvinnulífs víða um landið.

Herra forseti. Það liggur fyrir að Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólga muni hjaðna hratt á næstu mánuðum og það sama kemur fram í gengisspá fjármálaráðuneytisins. Það er eins gott að það gangi eftir og gengisvísitala krónunnar leiðréttist samtímis. Að öðrum kosti er hætt við að erfið staða útflutningsgreinanna valdi erfiðleikum víða um landið sem erfitt verður að bregðast við. Landsbyggðin þarf ekki á slíku að halda.

Herra forseti. Ég hef mikla trú á því að þetta tímabundna ástand gangi fljótt yfir og hér verði áfram efnahagslegur stöðugleiki til lengri tíma og að atvinnulífið haldi áfram að eflast og styrkjast þjóðinni til heilla.