131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:44]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar skýringar. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að auglýsingar í ríkisútvarpi þurfi ekki að vera af hinu illa og geti fyllilega samræmst öðrum markmiðum í rekstri ríkisútvarps og ríkissjónvarps. Hver veit nema að við lifum þá tíð að að nýju vakni þau viðhorf sem voru ríkjandi á 7. áratug síðustu aldar þegar neytendasamtök voru sterk og auglýsendum var mjög afdráttarlaust beint inn í þann farveg að vera með upplýsandi og góðar auglýsingar.

Hins vegar geta auglýsingar að sjálfsögðu verið mjög varasamar þegar þær eru farnar að hafa áhrif á dagskrárgerðina. Þess vegna hafa mörg okkar, einkum í stjórnarandstöðu þótt það sé líklega þverpólitísk afstaða að einhverju leyti, varað við aukinni áherslu á kostun í Ríkisútvarpinu, þar sem auglýsendur hafa bein áhrif á hvaða viðfangsefni eru tekin fyrir og hvaða þættir eru sýndir. En ef auglýsingatekjur á síðasta ári eru sundurgreindar þá fást tæplega 800 millj. kr. fyrir beinar auglýsingar en um 118 millj. kr. fyrir kostun. Þetta tel ég afar varasamt. Ég hef heyrt þau sjónarmið frá flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum að menn vara við þeirri þróun.

Að öðru leyti þá þakka ég hv. þingmanni fyrir skýringar hans. Ég hef ákveðnar efasemdir um vissa þætti þingmálsins en felli mig mjög vel við grunntóninn sem hér er boðaður.