131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:29]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni menntamálanefndar fyrir bráðskemmtilega ræðu og ýmsa sérkennilega útúrsnúninga úr skoðun okkar á málinu. Hvað varðar hlutafélagaformið í samanburði við sjálfseignarstofnunarformið þá munum við ræða það síðar í umræðunni enda ekki hægt að gera því skil á einni mínútu. Við munum kynna tillögu okkar til lagabreytinga þess efnis í umræðunni sjálfri.

Ég tek það fram vegna orða hv. formanns nefndarinnar að ég styð eindregið rekstur einkarekinna skóla á háskólastigi. En menn skulu líka fara að settum reglum og gæta þess að vel sé að verki staðið þegar unnið er að sameiningu slíkra menntastofnana.

Ég vildi síðan spyrja hv. formann menntamálanefndar: Telur hann ekki koma til greina og vera mikilvægt að koma á laggirnar námi í tæknifræði við opinberan skóla, t.d. Iðnskólann í Reykjavík eða Háskóla Íslands, til að nemendum bjóðist tæknifræðinám án þess að þurfa að borga fyrir það há skólagjöld í einkareknum skóla og tryggja þar með jafnrétti til tæknináms?