131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:31]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Ég tek undir það. Ég held að það sé vel skoðunar virði að sameina skóla á háskólastigi, auka samvinnu þeirra frekar og er það partur af umræðunni hér, en lítill tími gefst í þessu stutta andsvari. Við ræðum það betur á eftir.

Hv. formaður menntamálanefndar tók jákvætt í það að kannað verði að taka upp nám í tæknifræðum t.d. við Iðnskólann í Reykjavík og það byggt þannig upp. Ég held að það væri mjög farsæl þróun og bíð spenntur eftir að heyra viðhorf þingmanna við því í umræðunni í dag af því að við erum náttúrlega að ræða um framtíð tæknifræðanna. Við erum að tala um grundvallarbreytingu á skólastiginu þar sem verið er að setja nám í tæknifræðum inn í einkarekinn skóla sem er auk þess einkahlutafélag og námið einungis aðgengilegt gegn háum skólagjöldum. Því vildi ég gjarnan heyra hv. formann nefndarinnar koma aðeins betur að því hvenær hann sjái það gerast að nám í tæknifræðum hefjist t.d. við Iðnskólann í Reykjavík eða Háskóla Íslands?