131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:36]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er væntanlega komin skýringin, þ.e. að þeir aðilar sem ætla að standa að þessari breytingu vilja hafa meiri áhrif á rekstur skólans og væntanlega á stefnumótun og þar af leiðandi vinna gegn hinu akademíska frelsi skólans. Það er væntanlega skýringin. Þetta er eiginlega eina svarið sem komið hefur fram sem er hægt að taka mark á.

Hinar skýringarnar að það séu þrír aðilar nú en hafi verið einn áður á bak við Háskólann í Reykjavík eru augljóslega eftiráskýringar sem ekki komu fram í upphafi.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að vekja athygli á því að í lögum um háskóla er gert ráð fyrir sjálfseignarstofnunarforminu, þar er gert ráð fyrir að það sé til staðar. Þrátt fyrir það tekur meiri hluti menntamálanefndar undir það álit þeirra aðila sem nú ætla að fara að reka háskóla að það sé afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti, þ.e. sjálfseignarstofnunarforminu. Þetta er auðvitað afskaplega athyglisvert vegna þess að ekki er hægt að skilja lög um háskóla öðruvísi en að andi þeirra sé sá að ef skólarnir eru ekki ríkisháskólar eigi þeir að vera sjálfseignarstofnun. Hins vegar hefur tekist að fara í gegnum þingið með afar óljósan lagatexta þannig að í skjóli þess er þessi leið valin.