131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:58]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Mörður Árnason sé kominn töluvert fram úr sjálfum sér að tala um að hér sé um tímamót að ræða. Ég sagði að það ætti að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Þetta er fullkomlega í samræmi við yfirlýsingu frá menntamálaráðuneytinu sem hv. menntamálanefnd barst en í niðurlagi þeirrar yfirlýsingar stendur, með leyfi forseta:

„Er að því stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.“

Ég get ekki lesið annað út úr þessu en til standi að auka og efla framboð á tæknifræðinámi. Mér finnst það vera mjög jákvætt en ég sé ekki rökin fyrir því að það tengist þessu máli sérstaklega, vegna þess að við erum að klára hér frumvarp um sameiningu tveggja skóla og út af fyrir sig hafa allir aðilar tekið undir að það verði til þess að efla tæknifræðinám. Ég held að það sé mjög vert að efla það enn frekar en það er kannski gott að byrja á þessu og fara síðan að stíga næstu skref. Slíkir hlutir gerast ekki bara einn, tveir og þrír. Ég vil ítreka það að ég er persónulega þessarar skoðunar og tel að við eigum að horfa til þess í framtíðinni, en tel ekki að það tengist þessu frumvarpi beint og að það sé einhver ástæða til að stoppa það út af þessum ummælum.