131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:33]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Málefni Íraks hafa oft komið til umræðu á Alþingi í vetur og miðað við daginn í gær hafa frá því að þing kom saman í haust verið haldnar 149 ræður um Írak í sölum Alþingis. Ég tel að sjaldan hafi verið jafnmikil ástæða til þess að ræða þau mál og nú í framhaldi af kosningunum sem fóru fram þar um síðustu mánaðamót sem eru fyrstu raunverulegu þingkosningarnar í Írak frá 1953.

Um undirbúning og framkvæmd kosninganna naut írakska kjörstjórnin aðstoðar sendinefndar Sameinuðu þjóðanna til stuðnings Írökum en hún var stofnuð með ályktun öryggisráðsins nr. 1500/2003 og fékk með ályktun 1546/2004 yfirumsjón með kosningaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Þar var og ákveðið að nýjar kosningar færu fram eigi síðar en 31. janúar 2005 og nýrri stjórn var sett það hlutverk að semja stjórnarskrá sem mun verða lögð til grundvallar þingkosningum.

Þrátt fyrir það ástand sem ríkir í landinu og þrátt fyrir hótanir um ofbeldi og hryðjuverk til að spilla fyrir kosningaþátttökunni er talið að um 58% Íraka hafi greitt atkvæði í þingkosningunum. 40 manns biðu bana í ofbeldisverkum sem höfðu það markmið að spilla kosningunum og vissulega var þátttaka á sumum svæðum súnníta lítil, t.d. í kringum Ramati og Falluja, en útkoman var engu að síður áþekk kosningaþátttöku í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Noregi og í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvembermánuði sl. Mér finnst, herra forseti, full ástæða til að fagna þessu og að við hér á Alþingi gerum það, enda sýnir útkoman glöggt að írakska þjóðin leit á þessar kosningar sem mikilvægt og stórt tækifæri til þess að hafa áhrif á og móta samfélag sitt og taka þátt í að skapa sér nýja og betri framtíð.

Írakska þjóðin á eftir sem áður langt í land og það eru mörg ljón á veginum en ég ætla að við viljum, við á Alþingi Íslendinga, leita leiða og standa saman um að styðja hana eftir megni á þeirri vegferð sem núna er hafin.

Það sem vekur sérstaka athygli við úrslit þingkosninganna er hlutur kvenna en samkvæmt niðurstöðunum verða konur um þriðjungur þingmanna á írakska þjóðþinginu og fá 86 þingsæti af 275. Hlutfall kvenna verður þannig hærra á írakska þinginu en í nokkru öðru landi í þessum heimshluta og í raun svipað og það er hér á landi. Þar með er það sambærilegt við það sem einna best gerist í heiminum.

Þegar íslensk stjórnvöld lýstu pólitískum stuðningi við hernaðaraðgerðirnar til að framfylgja ályktun öryggisráðsins nr. 1441/2002 heimiluðu þau aðgang að íslenskri lofthelgi og lendingu á Keflavíkurflugvelli og skuldbundu sig til að styðja mannúðar- og uppbyggingarstarf í Írak.

Nú að afloknum þingkosningunum tel ég rétt að beina spurningum um þetta til hæstv. utanríkisráðherra og spyr hvernig þeim stuðningi hafi verið háttað og hvernig honum verði háttað. Ég leyfi mér í þessu samhengi, herra forseti, að leggja til að kannaðir verði möguleikar til þess að styðja sérstaklega írakskar konur sem eru núna að stíga sín fyrstu skref við að taka þátt í stjórnmálum landsins og að hlutur Íslendinga geti a.m.k. að hluta miðað við að veita þeim nauðsynlega fræðslu, þjálfun og annan stuðning, m.a. í takt við vinnu sem UNIFEM hefur víða staðið fyrir.