131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:50]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi draga fram í þessari umræðu. Í fyrsta lagi að kosningarnar í Írak voru mjög ánægjulegar og vegna þess að það var mjög góð kosningaþátttaka og Írakar eru á þennan hátt að feta sig á leið til lýðræðis.

En það sem mér fannst líka mjög athyglisvert í þessum kosningum og ánægjulegt og er eðlilegt að við speglum okkur svolítið í sjálf, er staða kvenna, hvernig konur koma út úr þessum kosningum.

Það hefur oft verið talað um að staða kvenna í arabaheiminum sé ekkert sérstaklega sterk, staða múslimakvenna. Nýlega kom út bókin Arabíukonur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur þar sem því var m.a. lýst að eftir að kona eignaðist dóttur talaði tengdafjölskyldan ekki við hana. En síðan átti hún son og þá varð hún viðræðuhæf í tengdafjölskyldunni.

En hvernig fór með kosningarnar? Jú, konur eru núna 31% á írakska þinginu og það var vegna þess að fjórði hver frambjóðandi á framboðslistanum átti að vera kona, það var kvóti.

Hvernig er staðan hjá okkur, virðulegur forseti? Konur hér eru 30,2%, karlar eru 70%. Við stöndum okkur því verr en Írakar varðandi hlutfall kvenna á þingi. Það er betra hlutfall kvenna á þingum m.a. á Kúbu, Spáni, Kosta Ríga, Argentínu, Rúanda, Suður-Afríku og í Írak en er á Íslandi.

Við þreytumst lítið á að monta okkur yfir því að við erum vagga lýðræðis. Maður stórefast um að innstæða sé fyrir því monti, virðulegur forseti, þegar við horfum upp á það að konum fækkaði hér í þinginu í síðustu kosningum, fækkaði um upp undir 6%. Það var hneyksli, virðulegur forseti.

Núna standa fyrir dyrum sveitarstjórnarkosningar og þar er hlutfall kvenna 31% hjá okkur. Ef hlutfall kvenna eykst þar með sama takti og verið hefur verður sú er hér stendur um 80 ára gömul þegar það verður komið í jafnvægi á móts við karla í sveitarstjórnum.

Ég vil því leyfa mér að óska íröksku þjóðinni til hamingju með að hafa hleypt konum að. Þannig verður lýðræðið sterkara og meiri líkur á velmegun í Írak en ella.