131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:11]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 61. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi frú forseta:

„Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.“

Þegar Félagsdómur fjallaði um þetta umrædda mál þá gat hann einungis farið að lögum samkvæmt stjórnarskránni. Hann kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þetta ákvæði samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem mér finnst merkileg niðurstaða. Hann leyfir sér að setja sig í stöðu stjórnlagadómstóls. Hann leyfir sér það, sem hann ekki hefur heimild til. Ef einhver opinber starfsmaður mundi mótmæla þessu og fara í einkamál þá heyrði það ekki undir Félagsdóm og færi gegnum dómskerfið upp í Hæstarétt. Í lögum stendur — það stendur ekkert um Hæstarétt í stjórnarskránni því miður — en í lögum stendur að Hæstiréttur sé æðstur dómstóla. Að mínu mati er hann sá eini dómstóll sem getur komist að niðurstöðu um hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána eða ekki. Annað er fráleitt. Ef hann kæmist í þessu máli að því að þetta mál stangaðist á við stjórnarskrána, hvar stendur þá úrskurður Félagsdóms sem er óæðri dómstóll? Ég furða mig á því að dómendur í Félagsdómi skyldu í umræddu máli leyfa sér að fara í hlutverk stjórnlagadómstóls.

Ég held að úrskurður Félagsdóms hafi verið mistök og hafi ekkert gildi frekar en aðrir úrskurðir héraðsdómara, sem verða að fara að lögum. Í lögum stendur að það skuli borga félagsgjald til stéttarfélags. Það stendur í lögunum. Að því skulu dómstólar fara nema þegar Hæstiréttur kemur fram sem stjórnlagadómstóll, þá getur hann dæmt lög andstæð stjórnarskránni.