131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Flutningur starfa á landsbyggðina.

[15:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er orðið nokkuð langt síðan skýrslan var unnin og ég man satt að segja ekki nákvæmlega hver vann hana en hún vakti gríðarlega miklar vonir. Eitthvað held ég að menn hafi farið fram úr sér í áætlanagerð í sambandi við hvað væri hægt að fjölga mörgum störfum á landsbyggðinni á vegum hins opinbera.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það er full ástæða til að velta þessu fyrir sér og fara yfir skýrsluna og skoða hvort þar geti verið brúklegar tillögur. En ég ítreka að ég tel að skýrslugerðin hafi í raun ekki skilað miklu og því miður vakið allt of miklar vonir sem hafa svo að engu orðið.