131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[14:56]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var fróðlegt að heyra hv. þm. Halldór Blöndal gera grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarflokkanna eða einkavæðingarflokkanna eins og hann kallaði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn réttilega.

Hv. þingmaður rifjaði upp umræðu sem fram fór fyrir fáeinum árum þegar Landssímanum var breytt í hlutafélag. Það er rétt munað hjá honum að um það urðu miklar deilur á Alþingi. Ég var í hópi þeirra sem vöruðu við því að hlutafélagavæðingin mundi fyrr eða síðar leiða til þess að eigandinn, ríkið, vildi selja þessa hluti og við stöndum einmitt frammi fyrir því núna.

Þáverandi hæstv. samgönguráðherra sagði að það væri af og frá og lýsti því yfir bæði á Alþingi og einnig annars staðar að það stæði ekki til að selja hlut ríkisins í Símanum. Sá hæstv. ráðherra hét og heitir Halldór Blöndal og er sami maðurinn og talaði hér fyrir stundu.

Ég vek athygli á þessu hér og nú vegna þess að ein ástæðan fyrir því að menn hafa miklar efasemdir um að breyta grunnþjónustustofnun á borð við Orkuveitu Húsavíkur í hlutafélag er einmitt sú að þrátt fyrir góðan vilja núna — og ég efast ekkert um heilindi hæstv. ráðherra á þeim tíma — breytast aðstæður og upp koma þau viðhorf að nú eigi að selja, (Forseti hringir.) eins og við stöndum nú frammi fyrir gagnvart Landssímanum.