131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:07]

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í lokin á nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar stendur:

„Er það mat meiri hluta nefndarinnar að ekki sé ástæða til að fresta gildistöku laganna enda hafi ekki verið sýnt fram á að breytingin hafi í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir frumlyfjaframleiðendur.“

Hefði ekki verið ástæða til þess að meiri hlutinn hugleiddi hvort einhver græddi á málinu? Við reyndum að fá það fram í viðræðum við þá sem mættu. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að það vildi enginn kannast við að hann græddi neitt á þessu. Þess vegna er það, eins og hv. þingmaður sagði, að þeir gátu ekki einu sinni svara því sjálfir. Hvers vegna í ósköpunum er þá hv. Alþingi að hlaupa til og samþykkja að flýta gildistöku fyrir þennan hluta málsins þegar engin veigamikil rök hafa verið færð fram fyrir því? Það hlýtur að verða að gera þá kröfu til lagasetningar á Alþingi að á bak við ákvarðanir um hana sé einhver skynsemi, séu einhver góð rök. Það sé ekki af því bara. Þess vegna hlýtur að verða að kalla eftir betri svörum frá hv. þingmanni, sem er formaður nefndarinnar, en hann hefur fært fram enn þá. Það kann vel að vera að hann lúri á einhverjum upplýsingum sem við höfum ekki fengið, en ég hef ekki séð þau góðu rök sem þurfa að vera fyrir þessari lagasetningu eins og allri annarri lagasetningu sem fjallað er um á hv. Alþingi.