131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:25]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa ágætu umræðu um erfitt og viðkvæmt mál sem hefur snert mörg byggðarlög illa. Það beinir einnig sjónum að málefnum förgunar á sláturúrgangi almennt og þeirri alvarlegu stöðu sem er núna uppi í þeim málefnum þar sem segja má að stjórnvöld hafi dæmt kjötmjölsverksmiðjuna í Flóa til dauða með því að hafna því að skoða upptöku einhvers konar förgunar- eða eyðingargjalds á sláturúrgangi sem hefði getað skotið rótum undir starfsemi slíkra verksmiðja því þær eru mjög mikilvægur þáttur í förgun sláturúrgangs, mjög umhverfisvænn og eðlilegur þáttur í stað þess að beita aðferðum eins og að urða sláturúrgang í jörð.

Ég vil því nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherra, sem ég ræddi þetta mál við fyrir hálfum mánuði, að endurskoða hug sinn og stjórnvalda í þessu máli þannig að starfsemi slíkra verksmiðja megi fá notið sín, enda um mjög mikilvægt umhverfis- og atvinnumál að ræða.