131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[11:00]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er nú ekki sú fyrsta í vetur og sjálfsagt ekki sú síðasta.

Ég vil byrja á að brýna hv. þingmenn á því að við megum ekki í þessari umræðu rugla saman þessu tvennu, annars vegar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem sveitarfélögin annast núna og svo hins vegar þeirra hugmynda sem eru á borðinu um tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Það liggur fyrir einarður vilji ríkisvaldsins að þeim verkefnum fylgi viðeigandi tekjustofnar.

Þuríður Backman minntist á útsvarsprósentuna og fréttir um að vilji ríkisins stæði ekki til þess að heimila hækkun útsvarsprósentunnar. Það er rétt. Við höfum ekki léð máls á því. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni þar sem ég nefndi í fyrri ræðu minni að á síðasta ári voru rúmlega 30 sveitarfélög sem nýttu sér ekki að fullu heimild sína til álagningar útsvars og þrátt fyrir að 67 sveitarfélög hafi verið rekin með halla á árinu 2003 var ekkert þeirra sem nýtti sérstaka heimild í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að hækka útsvarshlutfallið um 10%.

Ég hef þar að auki, hæstv. forseti, miklar efasemdir um að hækkun útsvarsprósentunnar sé það sem kemur verst stöddu sveitarfélögunum best. Ég hef miklar efasemdir um það og tel að aðrar leiðir komi þar betur að gagni.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson efaðist um vilja ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það er ástæðulaust af hv. þingmanni að efast um það, ríkisstjórnin stendur öll að þessu verki og í það hefur verið lögð mikil vinna um langa hríð og stendur ekki annað til af hálfu ríkisins en að standa þétt við bakið á þeim sem að þessu verkefni hafa unnið.

Ég tek undir með hv. málshefjanda Margréti Frímannsdóttur að við erum að ræða um byggðavanda. Ef vel gengur við sameiningu sveitarfélaganna, eflingu sveitarstjórnarstigsins og tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, er þar um leið um einhverja mestu byggðaaðgerð sögunnar að ræða.