131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:00]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál sé aftur komið til umræðu á hinu háa Alþingi. Eins og menn muna kannski var umræðu um málið frestað fyrir viku, eftir að menn höfðu staðið í pontu Alþingis og út úr þeim staðið bunan svo klukkutímum skipti, um allt annað en málið sjálft. Þá snerist umræðan um það hvort það nægði að settur menntamálaráðherra væri í salnum og viðstaddur umræðuna eða ekki. (MÁ: Staðgengill.) Staðgengill menntamálaráðherra, ef það þjónar hagsmunum hv. þm. Marðar Árnasonar að kalla ráðherrann það. Það skiptir ekki máli.

Við þá umræðu var lítið fjallað um efni málsins og málið þæft af stjórnarandstöðunni og hún gaf frá sér yfirlýsingar um að nauðsynlegt væri að fresta málinu. Það má svo sem segja að stjórnarandstaðan, sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, hafi náð nokkrum árangri í því máli. Þeim hefur tekist að tefja það að þetta góða mál sé leitt í lög.

Rifjum aðeins upp hver afstaða stjórnmálaflokkanna er til málsins og fulltrúa þeirra sem hingað hafa komið í pontu og fjallað um það. Ef við rifjum upp afstöðu þeirra til þessa máls, sem snýr náttúrlega fyrst og fremst um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, þá hefur komið skýrt fram, m.a. fram í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar — hann er því miður ekki í salnum þrátt fyrir að hæstv. menntamálaráðherra sé kominn í salinn og ég sakna hv. þingmanns — en hann lýsti því yfir að Samfylkingin styddi ekki sameiningu þessara tveggja skóla nema með þeim skilyrðum að frumvarpinu yrði breytt. En þegar að var spurt þá kom í ljós að Samfylkingin styddi ekki sameininguna.

Það kom líka fram í umræðunni í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styddi ekki heldur sameininguna. Það eru nokkur tíðindi, þykir mér, vegna þess að ég tel að málið sé gott og mér finnst líka dálítið sérstakt að stjórnmálamenn, þingmenn stjórnarandstöðunnar, vilji beita áhrifum sínum á hinu háa Alþingi til að bregða fæti fyrir það fólk sem stendur að rekstri þessara skóla og koma í veg fyrir að þeir stúdentar sem þar sinna námi geti gert það á þeim forsendum sem þeir sjálfir hafa lýst yfir að þeir vilji gera.

Þetta er bara upprifjun á því sem komið hefur fram í umræðunni. Ég verð þó að segja, áður en ég kem að efni málsins, að það ótrúlega gerðist þegar málið var síðast til umræðu að ég var sammála hv. þm. Merði Árnasyni sem lýsti því yfir í upphafi ræðu sinnar, ef ég man rétt, að stjórnarandstaðan hefði kannski mátt vera betur samstiga í málinu. Það er dálítið sérstakt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa skilað frá sér tveimur nefndarálitum um málið þar sem fram koma mismunandi sjónarmið. Það er athyglisvert í ljósi þess að það er ekki ýkja langt síðan formenn stjórnarandstöðuflokkanna lýstu því yfir, þegar þeir riðu til þings, að þeir mundu hafa með sér mikið og gott en þó löglegt samráð í afstöðu sinni til einstakra mála. Eitthvað virðist þó sem slest hafi upp á vinskapinn í stjórnarandstöðuflokkunum, a.m.k. í þessu máli. Ég held að hv. þm. Mörður Árnason hafi lýst því ágætlega í upphafi ræðu sinnar um málið. Ég tek undir það og það væri sómi af því ef stjórnarandstaðan mundi standa við stóru orðin í jafnmikilvægum málum eins og þessu, standa saman. Ekki að það geri málstaðinn eitthvað göfugri eða betri en það væri betri bragur á því eins og fram kom hjá hv. þingmanni í ræðu hans.

Eins og ég hef áður sagt, herra forseti, tel ég að hér sé um mikið framfaraskref í íslenskum menntamálum að ræða og einstaklega gott mál. Ég tel það sé mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnarflokkarnir vilji beita sér fyrir því að sameina Háskólann í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Hér er um að ræða sameiningu tveggja tiltölulega lítilla háskóla í einn sterkan háskóla sem getur virkað sem mótvægi við Háskóla Íslands. Úr sameiningunni verður að mínu mati til mjög öflugur háskóli, öflug menntastofnun. Starfið sem fram fer í hinum nýja háskóla mun nýtast nemendum og kennurum vel og sömuleiðis þjóðfélaginu öllu. Það á náttúrlega að vera kappsmál fyrir okkur að mennta þjóðina vel og tryggja gæði menntunar þannig að hér geti orðið framfarir, hvort sem það er í íslensku háskólalífi, íslensku atvinnulífi eða samfélaginu öllu.

Ég tel, herra forseti, kosti sameiningarinnar ótvíræða. Samkeppni milli háskóla er mjög af hinu góða og ég tel að reynslan hafi sýnt okkur að með samkeppninni aukist gæði menntunar verulega. Samkeppni bætir skólana, eykur valfrelsi og þeir kostir sem stúdentum bjóðast verða fleiri. Ég tel að besta dæmið um það sé mín gamla háskóladeild í háskólanum vestur á Melum, lagadeild Háskóla Íslands. Ég man hvernig sú deild var áður en lagadeild Háskólans í Reykjavík tók til starfa. Hún hafði verið óbreytt um áratuga skeið en við samkeppnina tóku menn sig á, gjörbreyttu og bættu námið sem hefur skilað sér í betri og efnismeiri menntun en fór fram á árum áður, þótt sú menntun hafi veri ágæt.

Hið sama mun gerast hvað varðar verkfræði og tæknimenntun. Við hljótum að fagna því að í hinum sameinaða háskóla verði lögð aukin áhersla á þær greinar umfram það sem nú er í hinum tveimur smáu háskólum.

Við vitum að áhrifin af því að auka vægi og styrkja nám í verkfræði og tæknifræði verða þau að ýmsar atvinnugreinar, t.d. í hátækniiðnaði, eflast. Við stígum í raun sama skref með þessu og Finnar gerðu fyrir mörgum árum þegar þeir tóku þá pólitísku ákvörðun að efla verkfræðinám til að efla nýsköpun í atvinnulífinu og efla hátækniiðnað með þeim afleiðingum sem við þekkjum, að finnskt efnahags- og atvinnulíf óx og dafnaði og Finnar risu ef svo má segja úr öskustónni og standa nú einna fremstir meðal þjóða.

Eins er það sérstakt fagnaðarefni að með þessu frumvarpi er ríkisstofnunum fækkað um eina. En það er ekki stærsti hlutinn af þessu máli þó að rétt sé að halda því til haga.

Í starfi og á fundum menntamálanefndar kom skýrt fram að kennarar, stjórnendur beggja skólanna og nemendur þeirra styðja mjög sameiningu skólanna. Það er sérstakt ánægjuefni. Það er gaman fyrir okkur sem stöndum að frumvarpi eins og þessu að finna jafnmikinn meðbyr og raunin er hjá þeim sem málið varðar. Það er gott að finna það að stjórnvöld eru að réttri leið í menntamálum og finna stuðning við málið, bæði hjá stjórnendum, kennurum og nemendum. Í ljósi þess skilur maður ekki hvers vegna í ósköpunum stjórnarandstaðan vill leggja stein í götu þess fólks sem á hagsmuna að gæta í málinu.

Það kom líka fram í nefndinni að það skipti verulegu máli að þetta frumvarp fáist samþykkt sem allra fyrst. Það er ljóst að framtíð þeirra sem hlut eiga að máli er að nokkru leyti óljós. Við erum að tala um 2.300 stúdenta sem vita ekki alveg nákvæmlega hvað býður þeirra meðan málið hangir í lausu lofti og frumvarpið er ekki samþykkt. Það sama má segja um 200 kennara sem málið varðar. Við vitum að frumvarpið felur það í sér að kennurum í Tækniháskólanum verður öllum sagt upp. Það skiptir miklu máli fyrir það fólk, sem á afkomu sína undir starfi sínu, fái að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Maður skilur ekki þann málflutning stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Mörður Árnason, að stjórnarandstaðan vilji fresta málinu eða leggjast gegn því. Það er algerlega óskiljanleg afstaða. Að sínu leyti er það blaut tuska framan í þetta fólk, 2.300 stúdenta og 200 kennara. En stjórnarandstaðan og hv. þingmenn hennar verða náttúrlega að eiga það við sig, ekki ætla ég að taka undir slíkan málflutnings.

Herra forseti. Stóru tíðindin í þessu máli eru að með sameiningunni og breytingu í menntakerfinu mun koma 300 millj. kr. innspýting frá atvinnulífinu, þ.e. einkaaðilum, inn í menntakerfið. Það eru stóru tíðindin í málinu, 300 millj. kr. frá einkaaðilum inn í menntakerfið. Auðvitað á að fagna þeim tíðindum. Hvers vegna í ósköpunum setja stjórnarandstöðuflokkarnir sig upp á móti sameiningunni eins og þeir hafa gert? Af hverju styðja þeir ekki að atvinnulífið styðji við bakið á menntakerfinu, stjórnmálaflokkar sem á hátíðisdögum telja að menntakerfið skipti miklu máli og tala mikið um það? Þegar á reynir sér maður hins vegar bara í iljarnar á þeim vegna þess að þeir hlaupast undan málinu, sérstaklega vegna einhverra formsatriða.

Þá skulum við koma að því hver eru helstu ágreiningsmálin varðandi þetta frumvarp milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna. Ágreiningsmálin snúast fyrst og fremst um formsatriði, þ.e. um rekstrarform hins nýja skóla. Almennt er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki ríkisins að ákveða hvert rekstrarformið á hinum nýja háskóla skuli vera. Taki einkaaðilar að sér að reka menntastofnanir þá eiga þeir sjálfir að fá að ákveða á hvaða formi þær eru starfræktar. Hið sama má segja um það þegar einkaaðilar taka að sér slíkan rekstur. Þá ættu menn að fagna því framtaki en ekki reyna að rífa það niður eins og hér hefur verið gert í umræðunni.

Ég verð að segja, út af þessu máli, ágreiningnum um rekstrarform hins nýja skóla, að mér finnst það býsna ódýrt, ódýr málflutningur, að þingmenn á hinu háa Alþingi komi í ræðustól og út úr þeim standi bunan um að það gangi ekki að þessi skóli sé rekinn á hinu forminu eða öðru og skipti sér af rekstrarforminu, menn sem taka enga áhættu í málinu eða leggja lítið sem ekkert af mörkum til málsins. En það stendur út úr þeim bunan við að mótmæla því rekstrarformi sem fólkið sjálft, sem vill efla menntakerfið og styrkja með því að starfrækja nýjan háskóla, hefur kosið að velja. Þetta er mjög ódýr málflutningur. Afskaplega ódýr.

Ég segi það fyrir mitt leyti að ef aðstandendur hins nýja skóla hefðu viljað starfrækja skólann á einhverju öðru rekstrarformi tel ég að við stjórnarliðar hefðum aldrei staðið gegn því. Ef það hefði verið mat stjórnenda hins nýja skóla að reka hann í formi sjálfseignarstofnunar, nú þá gott og vel, þá hefðu þeir bara fengið að gera það, a.m.k. hefði ég ekki slegið neina varnagla við því.

Þeir hafa hins vegar sjálfir ákveðið út frá sínum hagsmunum og þeim röksemdum sem þeir hafa fært fyrir máli sínu að það sé skynsamlegra að reka skólann á hlutafélagaforminu og það mega þeir taka ákvörðun um að mínu mati. Það er rangt sem fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að við í stjórnarliðinu værum á móti sjálfseignarstofnunum sem rekstrarformi. Það er ekki rétt. Ég er ekki á móti sjálfseignarstofnunarforminu sem rekstrarformi, alls ekki. Ég virði bara rétt þeirra sem hyggjast reka og starfrækja háskóla til þess að velja sjálfir á hvaða formi sá rekstur fer fram. Sú ákvörðun kemur að mínu mati hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni ekkert við.

Með öðrum orðum, herra forseti, þá er það atvinnulífið sjálft sem á að fá að ákveða með hvaða hætti slíkur rekstur fer fram en sú ákvörðun á ekki að vera undir okkur þingmönnum komin sem tökum ekki neinar afleiðingar eða berum neina ábyrgð á þeim rekstri sem hér er til umfjöllunar.

Eins og við ræddum við 1. umr. og ég tók þátt í fjölluðum við aðeins um það af hverju einkahlutafélagsformið var valið vegna reksturs hins nýja háskóla. Ég sagði þá að það væru í rauninni bara praktísk rök sem leiddu til þess að þessir aðilar veldu það form umfram sjálfseignarstofnunarformið en hvatti til þess að menn mundu nú spyrja stjórnendur hins nýja skóla hvers vegna það form hefði verið valið en ekki sjálfseignarstofnunarformið. Það var gert. Rekstraraðilarnir og stjórnendur hins nýja skóla gerðu mjög málefnalega og ítarlega grein fyrir því hvers vegna einkahlutafélagsformið var valið fram yfir sjálfseignarstofnun. Það kemur reyndar mjög skýrlega fram í bréfi sem menntamálanefndinni barst þann 7. febrúar árið 2005 sem stafar frá Sverri Sverrissyni, Guðfinnu S. Bjarnadóttur, Stefaníu K. Karlsdóttur og Bjarka A. Brynjarssyni. Þar færa þau býsna góð rök fyrir því hvers vegna hlutafélagaformið var valið fram yfir sjálfseignarstofnunina. Ég gæti svo sem farið yfir þau rök nákvæmlega en ég ætla ekki að gera það hér, það hefur verið gert.

En mér finnst það ansi kaldar kveðjur til þessa fólks, þar á meðal skólameistaranna í Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, sem hafa fært fram rök fyrir hlutafélagaforminu á einum þremur blaðsíðum, að síðan þegar málið er afgreitt frá nefndinni segir 1. minni hluti menntamálanefndar, þ.e. hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Katrín Júlíusdóttir, í nefndaráliti sínu að engin rök hefðu komið fram sem styddu einkahlutafélagsform hins nýja skóla. Mér finnst þetta nú ansi kaldar kveðjur gagnvart því fólki sem ætlar sér að starfrækja þennan háskóla og hefur valið sér þetta rekstrarform og hefur gert grein fyrir því á þremur blaðsíðum í svörum sínum til nefndarinnar að halda því fram að það séu bara engin rök, það sé ekkert að marka það sem frá þessu fólki kemur. Þar tel ég að liggi fyrir mjög haldbær rök fyrir því af hverju hlutafélagaformið er valið umfram sjálfseignarstofnunarformið og það fólk sem undir þetta plagg skrifar hefur það nú fram yfir marga hv. þingmenn að hafa reynslu af því að reka stofnanir og fyrirtæki á þessum tveimur formum.

Í þessu bréfi segir, með leyfi forseta:

„Reynsla okkar og kynni af þessum tveimur formum hefur sannfært okkur um að hlutafélagaformið sé almennt heppilegra þó alls ekki beri að gera lítið úr sjálfseignarstofnunum.“

Þetta fólk hefur reynslu af rekstri á báðum þessum félagaformum og kemst að þessari niðurstöðu á þeim grundvelli.

En ef við förum aðeins yfir það hver voru rök stjórnarandstöðunnar gegn einkahlutafélagsforminu þá voru þau tvenns konar. Tvenns konar rök voru færð gegn því að hinn nýi háskóli yrði rekinn á einkahlutafélagsforminu. Fyrri rökin voru þau að það gengi ekki að reka háskóla á Íslandi í formi einkahlutafélags vegna þess að slík félög væru rekin í hagnaðarskyni. Slíkum félögum væri ætlað að afla eigendum sínum arðs.

Í öðru lagi var því haldið fram að sjálfseignarstofnunarformið hefði sannað sig og það væri miklu betra við rekstur á skólastofnun og vitnað til skólamanna í því sambandi og einkum þó skólameistarans í Háskólanum á Akureyri.

Ef við förum aðeins yfir fyrri röksemdina um það sem komið hefur fram hjá stjórnarandstöðunni að það gangi ekki að reka háskóla sem hlutafélag vegna þess að það sé gert í hagnaðarskyni, þá kemur einfaldlega fram í samþykktum þess félags sem hér um ræðir, þ.e. Hástoðar, en í 2. gr. samþykktanna segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk félagsins er ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri.“

Í 11. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hagnaði félagsins skal aðeins ráðstafað til að efla starfsemina í samræmi við hlutverk félagsins. Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samræmast hlutverki og starfsemi félagsins. Ekki verður greiddur arður út úr félaginu.“

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að helstu rök sem stjórnarandstaðan flutti gegn þessu máli standast ekki vegna þess að það liggur fyrir í samþykktum félagsins að ekki verður greiddur út arður og ef það verður einhver arður af rekstrinum verður hann notaður til að efla þessa stofnun enn frekar. Ekki eru það því hagnaðarsjónarmiðin sem ráða. En þá hafa hv. þingmenn haldið því fram að það sé nú ekkert að marka þetta vegna þess að í samþykktunum segi að þeim megi breyta með 2/3 hluta atkvæða þannig að menn geti í rauninni komið saman á stjórnarfundi í Hástoð ehf. og breytt samþykktunum og tryggt sér það að greiddur verði út arður af þeirri starfsemi sem þar fer fram.

En hvaða reglur skyldu nú verða ef vilji stjórnarandstöðunnar næði fram að ganga og háskólinn yrði rekinn á sjálfseignarstofnunarformi? Það vill nefnilega þannig til að þann 19. mars árið 1999 samþykkti hið háa Alþingi lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þau eru nr. 33 frá árinu 1999.

Í 36. gr. þeirra laga, sem fjallar um breytingu samþykkta, slit og sameiningu, segir:

„Samþykktum sjálfseignarstofnana verður ekki breytt nema með heimild í þeim.“ — Sem er það sama og segir í hlutafélagalögum. — „Til breytinga á samþykktum þarf samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir.“

Með öðrum orðum, það gildir algjörlega sama regla um breytingar á stofnsamþykktum í sjálfseignarstofnun og í hlutafélagi. Þau rök að halda því fram að það kunni að vera að samþykktum hlutafélags verði breytt til þess að heimila að greiða út arð, þau gilda á nákvæmlega sama hátt um sjálfseignarstofnun. Það er enginn eðlismunur á þessu tvennu. (Gripið fram í: Enginn eðlismunur!) Enginn eðlismunur og í rauninni enginn munur. (Gripið fram í.) Þetta er bara alveg eins. En þetta voru þau rök sem hv. þingmenn beittu fyrir því að það gengi ekki að reka stofnunina á hlutafélagaformi. Það voru tvenns konar rök eins og ég hef farið yfir. Það voru annars vegar hagnaðarsjónarmiðin og hins vegar þetta að það væri bara hægt að breyta samþykktum einkahlutafélags og koma þessu öllu saman í það form sem stjórnarandstöðuflokkarnir óttast svo mjög.

Ef við víkjum að sjálfseignarstofnunarforminu af því að því hefur verið haldið fram af fulltrúum stjórnarandstöðunnar að sjálfseignarstofnunarformið sé miklu betra en einkahlutafélagsformið þá hlýtur maður að gera kröfu til þess að hv. þingmenn rökstyðji hvers vegna í ósköpunum það form er betra. Þau rök hafa ekkert verið færð fram hérna í þingsalnum. Því hefur bara verið haldið fram að sjálfseignarstofnunarformið sé miklu betra, (Gripið fram í.) en ég hef setið hér m.a. undir löngum ræðum frá hv. þm. Merði Árnasyni og ekki get ég fundið rökin fyrir því af hverju sjálfseignarstofnunarformið er betra. Ég tel að þeir sem halda slíku fram eigi þá að koma hingað upp í pontu á hinu háa Alþingi og skýra það út fyrir mér hvað það raunverulega er í sjálfseignarstofnunarforminu sem er betra en einkahlutafélagsformið. Hvað er það?

Menn hafa vitnað í orð skólameistara Háskólans á Akureyri og bera fyrir sig einhverja skólamenn. En hvað með þá skólamenn sem hér um ræðir? Hvað með stjórnendur Tækniháskóla Íslands? (Gripið fram í.) Hvað með stjórnendur Háskólans í Reykjavík? Eru þetta ekki skólamenn? Væri ekki rétt að taka mark á því fólki?

Hvað með aðra skóla sem starfræktir eru á Íslandi? Hvað með Flugskóla Íslands hf., hvað með hann? (Gripið fram í: Menntafélagið.) Flugskóli Íslands er rekinn á hlutafélagaformi og Menntafélagið ehf. sömuleiðis sem rekur Vélskólann og Stýrimannaskólann. Við höfum dæmi um það að rekstur menntastofnana fari fram á hlutafélagaformi og ekki bara á háskólastigi. Einkareknir grunnskólar og einkareknir leikskólar eru reknir á hlutafélagaformi og það verður ekki séð að það form standi starfsemi þeirra skóla fyrir þrifum.

En ég hlýt að kalla eftir rökum fyrir því af hverju í ósköpunum sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið er betra en einkahlutafélagsformið. Maður hlýtur líka að spyrja sig: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þegar menn hefja atvinnurekstur — og ég bið hv. þm. Mörð Árnason að svara þessari spurningu — hvort sem það er í venjulegum atvinnurekstri, í menntakerfinu eða hvar sem er, hvernig í ósköpunum skyldi standa á því að menn kjósa að gera það í formi hlutafélags? Hvernig stendur á því að hér spretta upp þúsundir ef ekki tugir þúsunda hlutafélaga um alls kyns rekstur, hvort sem það er á sviði menntamála eða einhverju öðru sviði? Ef sjálfseignarstofnunarformið er svona gott eins og hv. þingmenn vilja halda fram, af hverju sjáum við ekki sjálfseignarstofnanir spretta upp eins og gorkúlur úti um allt? Það er bara einfaldlega vegna þess, og ég skal svara þessari spurningu fyrir hv. þm. Mörð Árnason, að einkahlutafélagsformið og hlutafélagaformið er miklu hentugra í rekstri, þetta er bara miklu betra rekstrarform. (Gripið fram í.) Jú, jú, það er nú bara þannig að þrátt fyrir að við séum hér með menntastofnun og séum að fjalla um menntastofnun þá er það nú bara einfaldlega þannig að þær þarf að reka eins og önnur fyrirtæki og það gilda öll sömu lögmál um rekstur slíkra stofnana og annarra fyrirtækja. (MÁ: … lögin frá 1999.)

Ég kalla eftir þessum rökum, herra forseti. Ég kalla eftir röksemdum fyrir því af hverju í ósköpunum stjórnarandstaðan telur að sjálfseignarstofnunarformið er valið en ekki hlutafélagaformið.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að gera hlé á máli sínu þar sem gert var ráð fyrir matarhléi klukkan hálfeitt.)

Hv. þingmaður á einungis tvær mínútur eftir af ræðu sinni. Má ég klára hana?

(Forseti (HBl): Já.)

Herra forseti. Ég óska innilega eftir því að fá svör við þessum spurningum sem ég hef hér varpað fram. En að öðru leyti vil ég segja að ég tel að þetta mál sé mikið framfaramál, framfaraskref í íslenskum menntamálum. Ég furða mig á því og ég skil ekki af hverju í ósköpunum stjórnarandstaðan leggst gegn máli eins og þessu, sem er jákvætt og gott, ekki bara fyrir íslenskt menntakerfi heldur líka þá nemendur sem stunda nám í þessum skólum, kennara og stjórnendur. Maður skilur ekki í ljósi þeirra yfirlýsinga sem fram hafa komið fyrir menntamálanefnd af hverju í ósköpunum fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna vilja bregða fæti fyrir það fólk sem hér á raunverulega hagsmuni.

Herra forseti. Að þeim orðum sögðum lýk ég máli mínu.