131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:17]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka til umræðu nýútkomna skýrslu UNIFEM á Íslandi um jafnréttis- og kynjasjónarmið í stefnu og starfi íslensku friðargæslunnar. Skýrslan er miklu meira en úttekt á jafnréttis- og kynjasjónarmiðum íslensku friðargæslunnar eins og hv. þingmaður gerði grein fyrir. Hún endurspeglar ekki síður áherslur íslenskra stjórnvalda á þátttöku í friðargæslu á ófriðartímum.

Opinbera þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu má rekja allt aftur til ársins 1950 en þá voru fyrstu lögregluþjónarnir ráðnir til starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka Íslands lá eftir það niðri allt til 1984 en þá hófst tímabil markvissrar þátttöku í friðargæslu með því að ráða heilbrigðisstarfsfólk og lögregluþjóna til starfa og síðar sérfræðinga á ýmsum sviðum. Þetta var gert á vegum ÖSE, NATO og Sameinuðu þjóðanna.

Um þessa þátttöku Íslendinga í friðargæslu var góð sátt enda var hópurinn blandaður bæði að kyni og starfsstéttum og sinnti margbreytilegum verkefnum.

Miklar breytingar urðu á starfseminni haustið 2002 þegar íslenska friðargæslan tók við rekstri flugvallarins í Pristina í Kosovo en með þeim samningi komst Ísland í fararbrodd smáþjóða til að taka að sér rekstur og verkefni á vegum NATO. Það má velta því fyrir sér hvers vegna ákvörðun hafi verið tekin um að fara í svo viðamikið og sérhæft verkefni og nota til þess nær alla krafta íslensku friðargæslunnar. Um verkefnið sjálft má í sjálfu sér deila og athuga vandlega hvort íslenska þjóðin sé því hlynnt að friðargæsluliðar séu skilgreindir sem hermenn í störfum sínum. Þetta verkefni og það næsta, að taka við rekstri alþjóðaflugvallarins í Kabúl á síðasta ári, gerir að engu samþykkt Íslands á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi en sú ályktun er algjört lykilatriði varðandi samþættingu jafnréttissjónarmiða og friðargæsluaðgerða.