131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:59]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að standa upp vegna þeirra grundvallarsjónarmiða sem komið hafa fram hér við þessar umræður og lýsa með sínum hætti glögglega hvernig mismunandi stjórnmálaflokkar nálgast það viðfangsefni sem við erum hér að fást við.

Það sem hér hefur gerst er að þrenn samtök hafa sameinast um að stofna hlutafélag um rekstur Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og hefur ekki komið annað fram hjá þorra þeirra þingmanna sem til máls hafa tekið en að þeir telji að slík sameining sé í eðli sínu styrkur fyrir þessar stofnanir báðar, með því verði sterkari háskóli til. Ég hef engan mann heyrt andmæla því. Að vísu hef ég ekki heyrt allar þær ræður sem hér hafa verið haldnar. En ég hygg að um það sé grundvallarsamkomulag.

Þá er auðvitað næsta spurning sú hvort rétt þyki að við Íslendingar bindum okkur við það eftirleiðis að ekki verði reknir skólar hér á háskólastigi nema í opinberri eigu sem opinberar stofnanir eða hvort svigrúm verði gefið til þess að háskólar séu jöfnum höndum opinberar stofnanir og einkareknar. Eins og engum kemur á óvart eru Vinstri grænir andvígir stofnun einkahlutafélags er taki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Það eru þeirra grundvallarsjónarmið sem standa á bak við þá neitun. Þeir eru trúir sinni stefnu og ég get vel skilið það. Það er þeirra lífssýn, þeirra lífsskoðun. Ágreiningur skiptir mönnum í stjórnmálaflokka og ekkert er við því að segja.

Á hinn bóginn þykir mér eftirtektarvert að heyra það sem þingmenn Samfylkingarinnar segja um þetta efni. Nú er það að vísu svo að margir af þeim sem hér hafa talað fyrir hönd Samfylkingarinnar eru komnir úr Alþýðubandalaginu og af þeim sökum auðvitað aldir upp við sömu skoðanir og nú ráða ríkjum hjá Vinstri grænum og eiga erfitt með að losa sig alveg við ákveðna fordóma í sambandi við rekstrarform fyrirtækja og þar fram eftir götunum. Maður þekkir það af umræðum á Alþingi um áratugi að það hefur fylgt þeim sem í Alþýðubandalaginu voru að sitja þar uppi með ákveðna fordóma. Ekkert er við því að segja.

En það er eftirtektarvert að í niðurstöðum vinnuhóps á vegum framtíðarhóps Samfylkingarinnar, Menntun í þágu einstaklings og samfélags, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólar sem reknir eru af hinu opinbera annars vegar og einkaaðilum hins vegar verða að sitja við sama borð hvað þetta varðar.“

Þarna er því með öðrum orðum slegið föstu að Samfylkingin vill ekki gera upp á milli rekstrarforms skóla hvort sem það eru háskólar, framhaldsskólar, barnaskólar, leikskólar eða hvað sem er. Þetta skyldi maður ætla að væri nægilega skýrt. En þá kemur allt í einu annað í ljós. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hélt hér hvassyrta ræðu. Hann sagði að það væri heiðarlegt af þingmönnum Samfylkingarinnar að taka af skarið um það hvað þeir vilji og hvernig þeir vilji standa að þessum málum og lýsti því síðan yfir að Samfylkingin sé algjörlega andvíg því að þessi háskóli verði rekinn í formi hlutafélags en hins vegar væri það ásættanlegt í formi sameignarfélags. Ekki voru færð skynsamleg rök ... (Gripið fram í: Sameignarfélags?) (Gripið fram í: Kommúnisti?) nei, sjálfseignarfélags vildi ég sagt hafa. Ekki voru færð skynsamleg rök fyrir því að sjálfseignarfélagið væri rekstrarlega betri eining, sem varla var von, af þeim þingmanni sem um þetta fjallaði.

Að vísu átti ég nú von á því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sérstakur fulltrúi stassjónarinnar á Norðfirði, þegar hann kom hingað inn fyrst, mundi skilja að það gæti verið skynsamlegt að breyta félögum í hlutafélag því að sú gamla rauða eign heitir nú Síldarvinnslan hf. Hélt kannski að hann hefði eitthvað af því lært. En svo virtist ekki vera.

En nú rak hv. þingmaður þetta mál sitt með eftirtektarverðum hætti. Fyrst reyndi hann að bregða upp torkennilegu ljósi yfir rekstur Háskólans í Reykjavík, Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík. Ummæli hans voru slík að ekki er hægt að segja að þau hafi verið vítaverð í þessum sal. Á hinn bóginn kom fram fyrirlitning hv. þingmanns á þeim skoðunum sem þessi virti háskólamaður hefur fram að leggja um málefni háskóla á Íslandi. Ekki gat hjá því farið að mér þættu vissir fordómar fylgja þeim einkunnum og þeim ummælum sem hv. þingmaður lét falla um orð háskólarektorsins og þær skoðanir sem á bak við voru. Skýringin var sú að þingmanninum komu þessar skoðanir illa og þá var rétt að tala um þær svona með heldur lítilsvirðandi hætti.

Þá er í annan stað að segja að hv. þingmaður tók það fram þrásinnis í ræðu sinni að óskynsamlegt væri af þeim samtökum sem standa að því að yfirtaka rekstur Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík að fallast ekki strax á að það skyldi verða sameignarfélag því að hann þóttist sjálfur ætla að setjast í stól menntamálaráðherra, eins og ég skildi hv. þingmann. (Gripið fram í: Sameignarfélag?) Hann þóttist sjálfur ætla að setjast í stól menntamálaráðherra eins og ég skildi hv. þingmann, og þá skyldi hann nú jafna um þetta nýja hlutafélag sem ræki hér tvo háskóla.

Hann sagði að auðvitað væri ekkert við því að segja þó að menn stofnuðu hlutafélag um rekstur háskóla, ef þeir borguðu sjálfir brúsann, sagði hann. En á hinn bóginn væri eðlilegt að þeir sem réðu yfir fjármagninu sem rynni til háskólanna hefðu sitt að segja um það hvert rekstrarformið væri. Það væri heiðarlegt af Samfylkingunni að segja hvað við tæki, sagði hv. þingmaður, svo að þeir viti hvers þeir geta vænst.

Þetta var merkileg þula. Ég veit ekki hverjum hún var ætluð. En það er greinilegt að með þessu er verið að setja hinn nýja háskóla í vont ljós. Í öðru lagi er greinilegt að með þessu er verið að gefa þeim sem að honum standa til kynna að ef þeir haldi við það að hlutafélag verði stofnað um rekstur þessara tveggja háskóla þá sé það illa séð af Samfylkingunni, þetta verði tekið upp eftir að Samfylkingin kæmist til valda og, eins og mér skildist, hv. þingmaður væri orðinn menntamálaráðherra. Ég vona nú að það verði ekki af því.

Þetta aftur veldur því að maður fer að hugsa hvort hv. þingmaður og þá Samfylkingin telji að ekki séu nein álitamál í sambandi við það hvernig við getum byggt upp háskólamenntun hér á landi, rannsóknarstarf sem því fylgir og þar fram eftir götunum, hvort Samfylkingin telji að slíkt komi af sjálfu sér. Það kemur líka upp í hugann hvort það sé virkilega svo að Samfylkingin vilji standa á móti háskólamenntun ef samtök á borð við Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífisins og Verslunarráðið vilja að því koma.

Hv. 6. þm. Norðvesturkjördæmis, Anna Kristín Gunnarsdóttir, lagði á það áherslu að efla háskólamenntun í sínu kjördæmi. Það skildi vel. Ég hef áhuga á því að efla háskólamenntun í mínu kjördæmi eins og ég hef áhuga á því að efla háskólamenntun um allt land. Ég spurði hv. þingmann að því hvort hún mundi standa á móti því að háskólar yrðu reknir t.d. á Ísafirði eða á Hólum ef samtök kæmu að rekstrinum, t.d. Bændasamtökin á Hólum og t.d. þeir sem reka fiskeldi vegna þess að þar er miðstöð fiskeldisrannsókna, ef þau kæmu að þessum rekstri og vildu stofna um það hlutafélag.

Auðvitað gat hv. þingmaður ekki svarað því neitandi. Auðvitað komu vöflur á hv. þingmann. Auðvitað skildi hv. þingmaður að fyrir okkur vakir að reyna að styrkja menntun og rannsóknir og vísindi í landinu. Það er það sameiginlega markmið sem við höfum öll hér inni, að reyna að bæta háskóla okkar, byggja upp háskóla okkar og fá sem flesta krafta til þess að standa með okkur að því og til þess að bera ábyrgð á því. Við getum ekki hvert um sig óskað okkur þess að við getum farið okkar leið til þess. Við getum ekki haft fordóma þegar við erum að tala um uppbyggingu háskólamenntunar á Íslandi. Við getum ekki haft fyrirvara þegar Samtök atvinnulífsins vilja leggja fram fé til þess að bæta menntun í þeim greinum sem viðkomandi atvinnugreinar standa og falla með. Og við hljótum að taka því fagnandi þegar menn sem standa fyrir rekstri eru reiðubúnir til að leggja fé af mörkum til þess að gera íslenska atvinnuvegi samkeppnishæfa við erlenda atvinnuvegi, bæta samkeppnisstöðu okkar og gera einstaklingana hæfari en þeir hafa verið. Það er fyrir þessu öllu sem við erum að berjast.

Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði áðan. Þá sagði hann: „Við eigum að horfa á reynsluna.“ En það er ekki rétt hjá honum þegar hann segir: „Af því að fram að þessu hefur enginn háskóli á Íslandi verið rekinn með hlutafélagsformi þá skulum við ekki reka háskóla með hlutafélagsformi.“ Það var heldur enginn háskóli rekinn hér með sameignarformi. Það var einu sinni enginn háskóli á Íslandi. (Gripið fram í: Sjálfseignarstofnunarformi.) Sjálfseignarstofnunarformi, það er rétt, hv. þingmaður. Það var einu sinni enginn háskóli á Íslandi. Eitt tekur við af öðru.

Það liggur fyrir reynsla um að hlutafélagsfyrirtækið hefur reynst mörgum öðrum rekstrarformum betur, rekstrarformum sem hafa staðnað með tímanum vegna þess að tíminn hefur velkst öðruvísi en menn áttu kannski von á. Gleggsta dæmið um þetta er auðvitað samvinnuhreyfingin og hvernig fyrir henni hefur farið. Hver haldið þið að hefði trúað því þegar Jakob Frímannsson á Akureyri hætti sem forstjóri KEA að ekki mundi líða mannsaldur áður en einstaklingsfyrirtæki væri búið að kaupa allar fasteignir KEA á Akureyri? Hverjum hefði dottið það í hug? Svo ört breytist tíminn.

Ýmsir þeir sem voru hvað harðastir og lengst til vinstri hér áður fyrr og ég var að minnast á hér áðan og máttu ekki heyra minnst á annað en ríkisrekstur eru nú farnir að predika það, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, að sjálfseignarfyrirkomulagið sé besta rekstrarform sem hægt sé að hafa um háskóla og horfir til Danmerkur.

Ég held að við alþingismenn ættum að fagna því frumkvæði sem hér hefur verið tekið af menntamálaráðherra. Það lýsir djörfung vegna þess að það þarf djörfung til fyrir menntamálaráðherra að taka í framrétta hönd atvinnulífsins og stíga skref til nýrrar þróunar í okkar háskóla og menntamálum sem auðvitað verður til góðs fyrir Íslendinga til framtíðar litið af því að með því að fara inn á þennan nýja veg, þessa nýju braut, opnast nýir heimar fyrir ungt íslenskt menntafólk.