131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:19]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég segi eins og bóndinn í þjóðsögunni: Sjaldan bregður mær vana sínum. Ég hafði einhvern veginn heyrt þessa ræðu nokkrum sinnum áður.

Það sem ég gerði hins vegar tvisvar í minni ræðu var það að ég spurði þriggja ákveðinna spurninga. Ég geri mér grein fyrir að einni þeirra var nokkuð erfitt að svara, þeirri um framtíðarsýn. Þó hefði kannski verið hægt að reifa hana á nokkrum mínútum vegna þess að ég spurði um ákveðna þætti í henni en fékk eiginlega bara skæting um Samfylkinguna og Reykjavíkurlistann sem yfirleitt kemur upp í huga ráðherrans hæstv. þegar hún lendir í einhverjum vanda. Þá eru viss lausnarorð, ákveðnir lyklar sem hún grípur til, einkum tveir, annars vegar Samfylkingin og hins vegar Reykjavíkurlistinn. Ekki reyndar Vinstri hreyfingin – grænt framboð, það er meira hv. þm. Gunnar Birgisson sem hefur þann lykil í höfðinu, af einhverjum ástæðum.

Í öðru lagi spurði ég um háskólaráð og aðkomu nemenda og starfsmanna, rannsakenda og kennara að því og þá vísaði hæstv. ráðherra í Gunnar I. Birgisson og Sigurð Kára Kristjánsson, hv. þingmenn, en það voru einmitt þeirra textar og meiri hluta menntamálanefndar sem ég var að spyrja um, spyrja hvað þýddu. Ég fékk ekki svar við því.

Í þriðja lagi spurði ég um „f.h.r.-yfirlýsinguna“ og ég hef ekki fengið svar við því hvað hún þýðir, hvað þessi orð þýða sem ég rakti, og hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur túlkað með sínum hætti. Það sem kom þó út úr ráðherranum var það að háskólarnir mega taka upp tæknigreinar eins og aðrar greinar en þá innan fjárlagarammans sem þeir eru með núna. Þeir verða þá að hliðra til innan síns eigin fjárlagaramma til að taka upp tæknigreinarnar. Það er tilboðið. Það er athyglisvert fyrir hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að hlusta á það. Ef það á að kenna tæknigreinar uppi í Háskóla Íslands núna verður Háskóli Íslands að fleygja einhverju öðru út eða segja einhverjum öðrum upp eða fara að taka meiri skólagjöld af nemendum sínum því að ekki ætlar hæstv. menntamálaráðherra að hjálpa til við það.

Ég vil ítreka spurningar mínar um framtíðarsýnina og þó einkum um háskólaráðið því að ég lít svo á að í raun og veru hafi hæstv. ráðherra þó svarað spurningunni um merkingu f.h.r.-yfirlýsingarinnar þannig að hún þýddi ekki neitt. Hún þýddi það að vonandi ykist (Forseti hringir.) tæknigreinaframboðið í hinum nýja skóla en þýddi ekkert um aðra skóla. (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þm. Dagný Jónsdóttir taki eftir þessu.

(Forseti (BÁ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta að ræðutíma í andsvörum og svörum.)