131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:38]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var svolítið á skjön við það sem kom fram í máli mínu. Eins og ég sagði fékk nefndin, sem var undir forustu Íslands, nokkuð frjálsar hendur um hvernig hún skipulagði starf sitt og ég fór yfir það sem hún lagði mesta áherslu á. Það er alveg ljóst að hvað varðar samanburðarfræðina og samanburð milli þjóða þá vantar nokkuð upp á að við Íslendingar eigum nógu góða tölfræði um ástand mála þannig að það háði nefndinni nokkuð. Það sem hv. þingmaður nefndi hér veit ég ekki hvort hefur verið rætt en það kemur a.m.k. ekki fram í skýrslu nefndarinnar að rætt hafi verið um það mál .