131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:28]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að þetta eru merkilegar umræður sem eiga sér stað núna í hádeginu á Alþingi Íslendinga og gætu vísað til þess hvernig línur muni liggja í íslenskum stjórnmálum á næstu missirum og fyrir og eftir næstu kosningar og kannski gefið vísbendingar um hvaða möguleikar verði uppi á stjórnarsamstarfi eftir næstu kosningar.

Ég vil sérstaklega taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður talaði um lýðræðismálin og lýðræðishallann. Ein meginrökin fyrir því að mínu mati að við eigum að ganga í Evrópusambandið eru einmitt lýðræðishallinn. Við erum má segja núna aðilar að Evrópusambandinu án áhrifa. Við innleiðum þaðan regluverkið allt saman og njótum á móti ýmissa fríðinda, kosta o.s.frv. eins og allir þekkja og áhrifa af samningnum og aðildinni. Við erum má segja aðilar að Evrópusambandinu án þess að hafa nokkurn tíma horfst almennilega í augu við það eða viðurkennt það, aðilar án nokkurra áhrifa. Mér finnst lýðræðishallinn vera sterkustu rökin fyrir því að við eigum að ganga alla leið og ganga til samninga við Evrópusambandið um fulla aðild og fara síðan með þann samning, náist hann, fyrir atkvæði þjóðarinnar sem greiðir atkvæði um það hvort við gerumst aðilar eða ekki. Ég tengi því aftur við umræðurnar áðan um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslu og beins lýðræðis, en lýðræðishallinn á núverandi aðild Íslendinga að Evrópusambandinu án nokkurra eiginlegra áhrifa er býsna ræfilslegt hlutskipti að mínu viti.