131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:15]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir því að hafin verði frekari skólagjaldtaka á grunnnám á háskólastigi enda er ég persónulega andvígur því að við eigum að innleiða skólagjöld á grunnnám á háskólastigi. Ég tek því undir og fagna því að þessi aðgerð, þ.e. að tækninámið verði einungis til boða í einkareknum skóla gegn skólagjöldum, sé ekki stefnumörkun eða tímamót hvað það varðar.

Það mál sem við ræðum tekur til ýmissa grundvallarþátta eins og við höfum rætt um áður en ég spurði hæstv. ráðherra annarrar spurningar: Leiðir þetta til þess að til að við tryggjum valfrelsi og aðgengi að tækninámi og brjótum ekki á jafnrétti til náms í tæknigreinum að farið verði af stað með a.m.k. skoðun við að hefja kennslu í tæknigreinum við annan skóla, opinberan skóla þannig að tæknigreinarnar lúti sömu lögmálum og flest annað háskólanám á Íslandi? Ég nefndi sérstaklega Háskóla Íslands og Iðnskólann í Reykjavík. Ýmsir kostir bjóðast, auðvitað eru þeir fleiri. Verður þetta skoðað af fullri alvöru og er vilji til þess, eins og fram kom t.d. hjá þingmönnum Framsóknarflokksins?