131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Starfshópur um viðbúnað vegna efna-, sýkla- og geislavopna.

[15:17]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra í því ljósi að ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 21. október 2003 tillögu hæstv. dómsmálaráðherra um að mynda starfshóp sem hefði það verkefni að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar efna-, sýkla- og geislavopna hér á landi. Starfshópurinn var skipaður embættismönnum undir forustu ráðuneytisins en utanríkis-, heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti munu enn fremur koma að myndun hópsins. Var hópnum jafnframt falið að gera tillögur til úrbóta með það að markmiði að viðbúnaður hér á landi verði fullnægjandi, eins og sagði þá í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að varnir gegn gereyðingarvopnum á borð við eiturefna-, sýkla- og geislavopn séu meðal helstu viðfangsefna vestrænna ríkisstjórna á líðandi stundu. Hættan á hermdar- og hryðjuverkum þar sem slíkum vopnum kynni að vera beitt er talin ein stærsta ógn fyrir borgara hins vestræna heims nú á tímum. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag í nóvember 2002 var ákveðið að grípa til sameiginlegra aðgerða á þessu sviði með þátttöku allra aðildarþjóða, þar á meðal Íslands, sagði jafnframt í áðurnefndri kynningu.

Morgunblaðið tók málið upp í leiðara sínum 24. október 2003 og, með leyfi forseta, sagði m.a. þar:

„Við Íslendingar erum ekki óhultir frekar en aðrar þjóðir og verðum því að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þessari ógn er ekki hægt að ve[r]jast með hefðbundnum aðferðum heldur með samstilltu átaki löggæslu og nánu samstarfi við önnur ríki varðandi skipti á upplýsingum og reynslu. Þá verður að tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið og viðbragðsaðilar séu í stakk búnir til að bregðast við ef eitthvað gerist ...“

Í þessu ljósi spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort starfshópurinn hafi skilað af sér, og ef svo er hverjar séu helstu niðurstöður og tillögur hópsins.