131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:35]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að stjórnarfrumvarpið fjalli ekki um andaveiði. Það gerir það svo sannarlega. Í stjórnarfrumvarpinu eins og það liggur fyrir er kveðið á um að ekki megi eiga viðskipti með endur, hvorki selja né kaupa, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan áðurnefndra tímamarka. Þetta sama orðalag er bæði í 2. og 3. gr. og tekur því til andaveiði. Það er alveg augljóst. Við getum farið yfir þær ef hv. þingmaður óskar.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að umhverfisnefnd hefur hert á þessum aðgerðum í orðalagi sínu. Þannig segir í breytingartillögu við 2. gr. frumvarpsins:

„Heimilt er að takmarka veiðar við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. og ákveðinn tíma sólarhrings.“

Þarna er rýmkuð heimild ráðherrans til að takmarka veiðarnar. Ráðherra þarf ekki lengur að vera þeirrar skoðunar að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði heldur hefur ráðherra miklu víðtækari heimildir en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Í annan stað leggur nefndin til að í stað orðanna: „enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils“ komi: enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands stofnsins að takmarka veiðar innan leyfilegs veiðitímabils.

Þarna er með öðrum orðum kveðið mjög skýrt á um það, eins og ég skil textann, að það sé ekki heimilt að banna viðskipti með rjúpur ef ráðherra heimilar skotveiði allt veiðitímabil rjúpunnar frá 15. október fram í desember. Með þessum hætti hefur nefndin kveðið sterkar á um þessi atriði en frumvarpið en það er alveg ljóst hvort sem við lítum á tillögur nefndarinnar eða hæstv. ráðherra að öll viðskipti með endur eru bönnuð samkvæmt þessu frumvarpi.