131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:31]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í framhaldi af fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Eins og alþjóð veit virðist ríkisstjórnin staðráðin í að selja Símann úr eigu þjóðarinnar þvert á vilja hennar. Á þeirri sölu eru ýmsar hliðar, bæði sem lúta að þjónustu Símans við landsmenn en einnig fjárhagslegar hliðar. Síminn er geysilega verðmæt eign í eigu þjóðarinnar. Einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar hefur verið falið að annast söluna.

Nú gerist það að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis óskar eftir því að einkavæðingarnefnd eða fulltrúar hennar komi á fund hennar til að skýra stöðu mála og fá að heyra þau sjónarmið sem kunna að vera uppi í nefndinni, með öðrum orðum að fá umræðu um þetta mál og upplýsingar um hvernig málið stendur.

Þá gerist sá fáheyrði atburður að okkur í nefndinni eru borin skilaboð frá einkavæðingarnefnd þar sem hún gefur Alþingi langt nef og neitar að mæta á fund nefndarinnar til að upplýsa nefndina um stöðu mála. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort þetta sé gert samkvæmt hans skipun eða með hans vitneskju. Þetta er mjög alvarlegur hlutur vegna þess að hér er um að ræða opinbera nefnd og Alþingi ber skylda til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald í þessu stóra máli. Okkur ber til þess lagaleg skylda en okkur er með þessu meinað um að sinna þeirri lagalegu skyldu sem á okkur hvílir.