131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:31]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp eiginlega fyrst og fremst til þess að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég get bara tekið undir það með henni að ég vil að sjálfsögðu að það verði eitthvað úr þessu embætti talsmanns neytenda. Ég ber fulla virðingu fyrir því að hún beri fram spurningar og hafi jafnvel efasemdir vegna þess að þetta er dálítið nýstárleg leið sem þarna er farin. En þó á hún sér fordæmi. Við byggjum þetta á dönsku lögunum að verulegu leyti. Það er mjög mismunandi hvernig þessum málum er háttað hjá norrænum frændþjóðum okkar. En þetta er niðurstaðan, að fara þessa leið og auðvitað verður það rætt í hv. nefnd ítarlegar. Sjálfstæði hefur talsmaðurinn en hann mun þurfa að leita til starfsmanna Neytendastofu um aðstoð í daglegum rekstri. Hann er óháður fyrirmælum forstjóra Neytendastofu sem og öðrum. Hann þiggur laun eins og lög gera ráð fyrir en ég vil ekki meina að hann búi við skert athafnafrelsi heldur hafi hann það lögbundið.

Hvað varðar álitsgerðir sem hann leggur væntanlega fram og hvaða gildi þær hafa þá getur hann að sjálfsögðu komið með tillögur að úrbótum í slíkum álitsgerðum. Hann mun hins vegar ekki sinna hefðbundinni kvörtunarþjónustu. Það er augljóst. Við höfum samning við neytendastofnun um það mál.

Þetta er það sem ég vildi segja í 1. umr. En auðvitað er þetta dæmigert mál sem verður rætt frekar í nefnd.