131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:17]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem hér komu þó að ekki kæmi ótvírætt fram hjá honum að við mættum njóta þess að sjá þetta inni á samgönguáætlun. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, bæði Gjábakkavegurinn og Suðurstrandarvegurinn munu létta á umferðinni. Engu að síður reiknar Orkuveitan, vegna framkvæmda sinna á Hellisheiði og Hellisheiðarvirkjun sem nú stendur fyrir dyrum, með því að fá í heimsókn 250–300 þús. manns á ári. Það er ekki lítil aukning. Þessi umferð mun ekki fara um Gjábakkaveg eða Suðurstrandarveg.

Auk þess má benda á það að stór hluti þeirra sem stunda atvinnu á Árborgarsvæðinu og svæðinu þarna í kring stundar atvinnu í Reykjavík og það fólk mun nota Hellisheiðina áfram, eins og reyndar þeir sem fara austur fyrir í Rangárvallasýsluna. Við leggjum mikla áherslu á það, þingmenn Suðurkjördæmis, að þessi framkvæmd fari inn á samgönguáætlun.