131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að ræða þetta mál undir liðnum um störf þingsins því að það er komin upp mjög alvarleg staða í útvarpi okkar allra landsmanna. Félag fréttamanna hefur lýst vantrausti á útvarpsstjóra og hvatt hann til að segja af sér. Ef það er ekki ástæða til að ræða undir liðnum um störf þingsins, þegar sú staða er komin upp, veit ég ekki hvað við ættum að ræða hér.

Þessar aðferðir við ráðningu fréttastjóra útvarpsins minnir á löngu liðna tíma sem maður hélt að væru svo sannarlega liðnir, þessi helmingaskiptaregla stjórnarflokkanna sem tíðkaðist á síðustu öld. Eigum við að búa við þetta í dag? Þar sem komið hefur fram að það eigi að ræða þetta mál eftir helgina vil ég gjarnan að fyrir liggi ákveðnar upplýsingar þegar málið verður rætt á mánudaginn.

Það tók sex mánuði að ráða í þetta starf. Hvernig stóð á því að það tók svo langan tíma að ráða í þessa stöðu? Sérfræðiþjónusta var fengin, verktakafyrirtæki mat umsóknirnar. Hver var niðurstaða þess? Hverjir voru taldir hæfastir? Og var farið eftir því áliti? Ég vil að það liggi fyrir þegar við ræðum þetta mál.

Sömuleiðis óska ég eftir því að það verði upplýst á Alþingi hvað sú ráðgjafarþjónusta kostaði skattborgara. Ég óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra leggi þessar upplýsingar fyrir þingið, sérfræðiþjónustuna, niðurstöðuna, hverjir voru taldir hæfastir og hvað þetta kostaði.