131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:50]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. RÚV er eign ríkisins en ekki þjóðarinnar. Það er mikill munur þar á. Þjóðin uppgötvar það þegar hún þarf að borga skatta til ríkisins að þetta er ekki sami aðilinn.

Allt tal um það að menn eigi RÚV, það sé eign þjóðarinnar, er náttúrlega alveg út í hött. Ef menn eiga eitthvað geta þeir gert eitthvað við það, selt það eða veðsett. Það geta þeir ekki með Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Er það Ríkisútvarpið sem á RÚV?) Þess vegna verður RÚV alltaf pólitískt. Það er pólitík sem stjórnar ríkinu og ríkið á RÚV. Umræðan sýnir að margir hv. þingmenn trúa því að fjölmiðlar geti mótað skoðanir fólks. Annars hefðu þeir engar áhyggjur af þessu. Hún sýnir hve mikilvægt er að setja lög um fjölmiðla sem eru kannski í eigu eins aðila. (Gripið fram í.)

Flokkarnir eiga fulltrúa í útvarpsráði, skilst mér, og þar eru tvær persónur sem eru eign Samfylkingarinnar. Þær persónur gerðu ekki neitt. (Gripið fram í: Jú.) Ekki skilst mér það. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Svo er annað. Hvernig ætla menn að brjóta upp staðnað kerfi og láta ferska vinda blása um fyrirtækið ef aldrei má ráða fólk nema starfsmennirnir samþykki það, þeir sem eru inni í gamla kerfinu? (Gripið fram í: Nei.) Það er heldur illt. Ég hef lagt til að selja RÚV, þá hefði enginn maður áhyggjur af þessu. Ef fréttastofan yrði slæm eftir það og flytti bjagaðar fréttir hætti maður bara að hlusta á þær. Svo einfalt er það.

Svo hef ég auk þess grun um að hinn nýi fréttastjóri, án þess að ég viti nokkuð um það eða þekki manninn nokkuð, sé samfylkingarmaður.