131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:30]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá greinargerð sem hann kynnti hér við fyrri umr. um þessar þingsályktunartillögur. Ég held að það sé afar mikilvægt að þegar verið er að stíga skref til að framselja vald íslenskra stofnana, ekki síst dómstóla, fari fram um það umræða á Alþingi, bæði þannig að þingmenn átti sig á því um hvaða valdaframsal er að ræða, hvort það sé nauðsynlegt og hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fá fram umræðu um þá þætti hér við þinglega meðferð málsins. Því er ekki að leyna að framsal dómsvalds eins og gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunum og því frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram hefur valdið mér og fleiri alþingismönnum nokkurri umhugsun. Þegar tillögur í þessa átt komu fyrst fram á síðasta þingi í frumvarpi frá hæstv. viðskiptaráðherra vildum við sem þá sátum í efnahags- og viðskiptanefnd staldra við og kanna málin betur.

Nú hefur utanríkisráðuneytið látið gera greinargerð um þessa þætti, fengið til þess virtan fræðimann á sviði lögfræði og það verður auðvitað afar mikilvægt innlegg í umræðuna og þá umfjöllun sem á eftir að eiga sér stað hér í þinginu. Fyrir það ber að þakka. Þau atriði að framselja ákveðinn hluta ríkisvaldsins til alþjóðlegra stofnana gengur auðvitað gegn ákveðnum prinsippum. Hins vegar kunna að vera praktísk og skynsamleg rök fyrir því að gera það í takmörkuðum mæli. Þessa þætti er sjálfsagt og mikilvægt að skoða.