131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:05]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég á það erindi öðru fremur í ræðustól að fagna því að þetta frumvarp skuli fram komið. Með frumvarpinu er fellt úr gildi ákveðið bann sem hefur verið í almannatryggingalögunum, í ákvæðunum um sjúkratryggingar, í langan tíma þar sem kveðið er á um að sjúkratryggingum sé óheimilt að greiða fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr elli- og örorkulífeyrisþega.

Nú hefur tannlækningum eins og öðrum lækningum fleygt fram á síðustu árum. Tannheilsa ellilífeyrisþega eins og annarra er almennt orðin betri og það sem var hlálegt við þetta ákvæði, eða bannið eins og það var, var að við höfum heilbrigðisáætlun sem gerir ráð fyrir því sem markmiði að tryggja að fólk á tilteknu aldursbili, aldraðir, haldi tilteknum tönnum í biti. Ákvæðið eins og það var, um að bannað væri að taka þátt í kostnaði vegna krónu eða við að smíða brú í elli- og örorkulífeyrisþega, hefur á ákveðinn hátt unnið gegn því markmiði heilbrigðisáætlunarinnar.

Aðalerindi mitt hingað er að fagna frumvarpinu. Það er ljóst að forsendur frumvarpsins eru þær að aðeins tiltekinn fjöldi ellilífeyrisþega, þeir sem eiga rétt til greiðsluþátttöku samkvæmt frumvarpinu, láti á þann rétt reyna og hafi þörf fyrir þá greiðsluþátttöku á næstunni. En eins og bent er á í greinargerð með frumvarpinu, eins og þegar reglum ráðuneytisins um hjálpartæki var breytt, getur verið að orðið hafi til uppsöfnuð þörf. Því hefði verið gaman að sjá gert ráð fyrir því að meira fjármagn væri veitt til þessa. Við verðum a.m.k. að vona að allir þeir sem láta á reyna fái sjúkratryggingarnar til að taka þátt í kostnaði sínum vegna þessa.

Við höfum lengi beðið eftir þessu frumvarpi og vonast eftir því. Með því verður mikil framför í þjónustu við þá ellilífeyrisþega sem þurfa á þjónustunni að halda. Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að þetta fellur að markmiðum sem Alþingi hefur sett með samþykki heilbrigðisáætlunar að því er varðar tannheilsu aldraðra.