131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:19]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að ítreka áhyggjur mínar af því að ef aðgengi af skattskránum yrði takmarkað verulega eða lokað fyrir það þá mundi launamunur kynjanna aukast og erfitt yrði að fylgjast með því hver raunveruleg laun kynjanna eru. Upplýsingar hjá stéttarfélögum um samningsbundin laun o.s.frv. gefa ekki nema ákveðna mynd af stöðunni og það hefur komið í ljós að jafnþokkalega og okkur hefur miðað í jafnréttismálum á sumum sviðum á síðustu árum og áratugum þá hefur það einhvern veginn staðið eftir að launamunur kynjanna er verulegur. Uppi hafa verið hugmyndir um róttækar aðgerðir, heimildir til að fara í fyrirtæki og kanna þessa hluti. En ég kalla eftir einhvers konar mótvægisaðgerðum, ef svo má segja, þ.e. ef við færum þá leið að þrengja aðgengi að skattskránum þannig að erfiðara yrði að nálgast þær. En ég held að það sé ótækt að banna það alveg. Við þurfum að hafa aðrar leikreglur þá til að nálgast upplýsingar eins og þessar um laun kynjanna þannig að það liggi fyrir hver þau séu og að karlar og konur njóti sanngirni í því máli og fái almennt sömu laun fyrir sömu störf. Það er algjörlega óþolandi óréttlæti ef svo er, og sem er reyndin, að launamunur kynjanna skipti tugum prósenta. Það er eiginlega lyginni líkast og er eins og margir hafa sagt eitt af alvarlegustu meinum samfélagsins í dag og í þessum þætti jafnréttismála hefur lítið þokast á undanförnum árum. Ég held því að það þurfi að skoða þetta og koma með sannfærandi rök fyrir því hvernig sé hægt að vinna gegn launamun kynjanna þannig að hann mundi ekki aukast ef skattskráraðgangurinn mundi takmarkast eða hverfa.