131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:48]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gat þess að framlagning skattskrár hefði minnkað kynbundinn launamun. Nú er búið að birta þessar upplýsingar síðan 1929 skilst mér, þessi kynbundni launamunur ætti þá að vera horfinn á svona löngum tíma.

Ég held því fram að framlagning skattskrár breyti engu um kynbundinn launamun, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það sem kemur upp um kynbundinn launamun eru t.d. launaupplýsingar sem VR, Verslunarfélag Reykjavíkur kannar og birtir ópersónubundið. Það eru miklu meiri upplýsingar og miklu betri.

Og að mögur ár launamanna hafi verið undanfarin ár. Jesús minn, launin hafa hvergi hækkað jafnmikið og á Íslandi síðustu 10–15 árin. Það er leitun að landi þar sem launin hafa hækkað annað eins þannig að það hafa nú ekki aldeilis verið mögur ár launamanna. Launamunurinn verður ekkert falinn þó að ekki séu birtar persónubundnar upplýsingar úr skattskrám, það veit hv. þingmaður mætavel. Þær upplýsingar munu koma fram áfram sem betur fer og hvetja fólk og alla til þess að minnka launamuninn. Ég held því reyndar fram að hann sé ekki stjórnarskrárbrot vegna þess að það getur hver og einn ráðið hvern sem er á launum sem báðir eru sammála um.

Hv. þingmaður sagði að menn hefðu verið stoltir af því hér áður fyrr að hafa komist til álna. Það var áður en skatturinn varð svo mikill að menn komast ekki lengur til álna.