131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Íslenskun á ræðum æðstu embættismanna.

175. mál
[18:15]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á þeirri almennu reglu að ræður sem forseti Íslands og ráðherrar flytja á erlendu tungumáli í embættis nafni verði íslenskaðar ef þess er óskað.

Ástæðan fyrir því að ég legg fram þessa tillögu er sú að þann 21. nóvember 2003 hafnaði skrifstofa forseta Íslands að þýða ræðu sem forsetinn hafði flutt í Columbia-háskólanum í New York en það gerði hann þann 12. nóvember sama ár. Forsetaembættið skýrði synjunina með því að vísa til einhverrar vinnureglu, sagði að það væri vinnuregla opinberra aðila, svo sem ráðherra, að þýða ekki þessar ræður. Þingsályktunartillaga mín felur það í sér að breyta þessari vinnureglu. Það er algerlega óskiljanlegt að æðstu embættismenn þjóðarinnar neiti að þýða ræður yfir á íslensku sem þeir flytja í nafni þjóðarinnar.

Það vekur ákveðna furðu að menn skuli neita þessu. Ég hélt að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum bæði forsetans og hæstv. ráðherra að skýra út fyrir þjóðinni hvaða mál þeir flytja fyrir hönd þjóðarinnar. Forsetanum og ráðherrum ætti þess vegna miklu frekar að vera kappsmál að láta þýða ræður sínar. Varla er kostnaðurinn svo mikill, forsetinn flutti á árinu 2002 36 ræður, þ.e. ræður og rit sem hefði þurft að þýða á íslensku. Ég tel þetta það mikið forgangsverkefni fyrir stjórnvöld að ef kostnaður er vandamálið ætti að spara á öðrum sviðum. Til embættisins varði forsetinn 156 millj. kr. Það er ekki það mikill kostnaður við að þýða nokkrar ræður eða nokkra tugi ræðna yfir á móðurmálið að það ætti að standa í veginum, ætti frekar að vera forgangsverkefni æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Stjórnvöld hafa ýmsa tyllidaga, svo sem 16. nóvember, fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar, dag íslenskrar tungu. Stjórnvöldum sem óska eftir því að við vöndum mál okkar ætti að vera kappsmál að þýða einmitt ræður af þessu tagi yfir á móðurmálið.

Einnig verður að líta til þess að margt eldra fólk í þjóðfélaginu er ekkert sérstaklega vel að sér í ensku, og svo sem ýmsir aðrir líka. Þessi ræða sem ég fékk ekki þýdda hjá embætti forsetans á íslensku er á mjög flókinni ensku. Þó að ég sé þokkalegur í ensku eru ýmis orð sem vefjast fyrir mér sem ég á erfitt með að átta mig á. Þessi ræða er að mörgu leyti sérstök vegna þess að í henni er fluttur boðskapur hvað varðar t.d. fiskveiðistjórn. Ræðan fjallar um sjálfbærar fiskveiðar. Ég tel að forsetinn hafi dregið upp mjög óraunhæfa mynd upp af íslenska kvótakerfinu og einnig hafi forsetinn dregið upp óraunhæfa mynd af stöðu heilbrigðismála víða á landsbyggðinni. Þess vegna væri nauðsynlegt að ræðan yrði þýdd á íslensku svo að þeir sem ræðan fjallar um gætu tjáð sig um hana. Þannig yrði ákveðið flæði í þjóðfélaginu.

Í ræðunni kemur forsetinn inn á ástandið þar sem hann er alinn upp. Hann segist vera alinn upp í litlu sjávarþorpi og ég tel hann vera að tala um Þingeyri. Í ræðunni er sagt frá því að allir, hvar sem þeir búa á landinu, búi við sömu aðstöðu og hafi m.a. jafngreiðan aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Nú er það óvart svo að á árinu 2003 var einmitt ekki starfandi hjúkrunarkona á Þingeyri. Mér skilst að þjónusta hjúkrunarkonunnar nú sé líka nokkuð stopul. Ég tel að miklu betur færi á ákveðnu flæði milli forsetans og þjóðarinnar, hann flytti ekki eitthvert mál á útlensku, færi jafnvel með eitthvað sem kannski á ekki alveg við rök að styðjast.

Einnig eru dregnar upp mjög óraunsannar, og villandi vil ég segja, upplýsingar um hve sjálfbært fiskveiðistjórnarkerfið okkar er. Við verðum þó að sætta okkur við annað, staðreyndirnar frá Hafrannsóknastofnun sýna að bæði eru fiskstofnarnir lakari en fyrir daga þessa kerfis sem forsetinn var að mæra í útlöndum og í ofanálag er aflinn helmingi minni. Síðan má bæta við að kerfið hefur einmitt leikið þorp eins og Þingeyri mjög grátt. Því verður ekki á móti mælt.

Öll umræða um þýðingar á ræðum æðstu embættismanna er svolítið sérstök í ljósi þess að lagaskylda hvílir á enska boltanum, að hann sé þýddur á íslensku. Æðstu ráðamenn geta hins vegar flutt ræður, mjög miklar ræður, í útlöndum á ensku og enginn fær þær þýddar. Þess vegna ætti það miklu fremur að vera forgangsverkefni að þýða ræður æðstu embættismanna en enska boltann. Mér finnst það liggja í augum uppi.

Þetta mál tel ég vera augljóst og snerta líka annað mál sem var rætt hér á síðasta þingi, réttarstöðu íslenskrar tungu, þar sem menn fóru yfir réttarstöðu móðurmálsins. Það ætti að vera sjálfsagt að breyta þessari vinnureglu og ég hef fulla trú á því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.