131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:37]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Af því að hv. síðasti ræðumaður tók þannig til orða, hvort sem iðnaðarráðherra treysti sér til að vera við þá umræðu eða ekki, vildi ég bara að hér kæmi fram að vegna þess að hér á að ræða þá ákvörðun að semja við pólska skipasmíðastöð í stað íslenskrar er það mál sem heyrir ekki undir mig. Ég kom ekki að þeirri vinnu. Ég er hins vegar iðnaðarráðherra og fer með málefni skipasmíðaiðnaðarins sem slíks og er tilbúin hvenær sem er að ræða framtíð hans. Þetta er þó afmarkað mál, ég hef ekki komið að ákvarðanatökunni og þar að auki hef ég gagnrýnt hana harðlega og þess vegna er ekki rétt að ég sé til svara fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í þessu máli.