131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:32]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvartar yfir því að honum sé svarað á vettvangi Alþingis. Hann kemur hér upp til að tala um starf Framsóknarflokksins, lýðræðislegt starf innan flokksins með niðrandi hætti, sakar mig svo um það að fara með einhverjar háðsglósur um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég gerði það ekki. Ég sagði það sem rétt er að svo virtist vera að þetta væri ekkert vandamál hjá stjórnmálaflokki hans. Þeir teldu að þetta væri allt saman ljóst.

Ein yfirlýsing var afskaplega merkileg í þessari umræðu og langmerkilegasta yfirlýsingin sem gefin var. Það var hv. þm. Ögmundur Jónasson sem það gerði. Ég heyrði ekki betur en hann segði að rétt væri að segja EES-samningnum upp ef tiltekin tilskipun yrði innleidd.

Nú vill svo til að deilur eru um þá tilskipun en við verðum hins vegar að búa okkur undir að niðurstaða komi einhvern tíma um þá tilskipun, ekki endilega í því formi sem hún er í dag og þá er það stefna eins stjórnmálaflokks á Alþingi að segja samningnum upp. Og ég heyrði ekki betur en hann hefði viljað segja samningnum upp út af raforkutilskipuninni. Að vísu er því haldið fram skipti eftir skipti á Alþingi að það hefði … (Gripið fram í: Það er misskilningur.) Þá er að misskilningur, ég tek það þá til baka, en því er haldið fram skipti eftir skipti á Alþingi að það hefði verið hægt að fara fram hjá þeirri tilskipun. Það er rangt og það er ljótur leikur að halda því fram í sambandi við raforkumálin á Íslandi en þetta gerir Vinstri hreyfingin – grænt framboð skipti eftir skipti að þeir halda slíku fram sem stenst ekki því miður og það er ljótur leikur að halda því fram á almennum fundum að við hefðum getað náð einhverri allt annarri niðurstöðu en við fengum í því máli.