131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:11]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Markmiðið er að kanna hvort ástæða sé til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum, að fá upplýsingar sem mundu þá hjálpa til við þá ákvarðanatöku hvort það skuli gert eður ei. Eins og ég sagði áðan tel ég ástæðu til þess að Seðlabankinn sé þarna í forustu, ég hef ekki skipað nefnd, en eins og ég nefndi áðan á ég fund með Seðlabankanum í þessari viku þar sem við munum m.a. fara yfir þetta mál.

Varðandi það hvort það skipti máli að þessi tillaga verði samþykkt af hv. Alþingi eða ekki þá er það náttúrlega mál þingsins en ég tel að ráðuneytið og þeir aðrir sem koma til með að vinna að málinu geti í sjálfu sér unnið að því án þess að fyrir liggi ályktun frá Alþingi. Eins og ég segi þá er það náttúrlega ákvörðun þingsins. Ég mun a.m.k. sjá til þess að þingnefndin verði upplýst um það hvernig mál standa þegar þetta mál verður til umfjöllunar þar.