131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að það sé fjölbreytni í þjónustu við fatlaða. En ég velti því fyrir mér hvers vegna alltaf hafi verið stríð um Sólheima. Ég sat á annan áratug í fulltrúaráði Sólheima að beiðni aðstandenda og foreldra vistmanna á staðnum og ég verð að segja að því miður virtist mér oft hinir fötluðu ekki vera í fyrirrúmi hjá þeim voru þar við stjórnvölinn. Oft var meiri áhersla lögð á umhverfismál, á alls konar gæluverkefni eins og byggingar, t.d. kirkjubyggingu þótt fjöldi kirkna sé í nágrenninu sem hægt væri að sækja og væri tilbreyting fyrir íbúana á Sólheimum að fara þangað og sækja guðsþjónustur þar. Sömuleiðis tek ég undir að grundvallarmannréttindi skuli virt og tek undir með þeim sem gagnrýna það að fatlaðir á Sólheimum þurfi að sækja alla þjónustu í byggðakjarnanum eins og t.d. verslun. Þeir eru skyldaðir til að skipta við eina bankastofnun o.s.frv.