131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:27]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Samanburður á annars vegar greiðslum almannatrygginga og svo hins vegar staðtölum kjararannsóknarnefndar leiðir í ljós að upphæðir grunnlífeyris almannatrygginga og tekjutryggingar hafa á undanförnum 10 árum lækkað verulega sem hlutfall af launum. Er þá sama hvort miðað er við lágmarkslaun, meðallaun verkafólks eða launavísitölu Hagstofu Íslands.

Fram til þessa hafa stjórnarliðar einatt borið fyrir sig að áðurnefndum skerðingum hafi verið mætt með nýjum bótaflokkum, svo sem með tekjutryggingarauka og heimilisuppbót. Þessi rök stjórnarliða eru alröng enda hvor hinna nýju bótaflokka um sig háður mjög þröngum skilyrðum.

Sem dæmi má nefna að samkvæmt staðtölum almannatrygginga voru það einungis 314 einstaklingar af tæpum 27 þús. lífeyrisþegum sem fengu greiddan óskertan tekjutryggingarauka á árinu 2003. Það er bæði óheiðarlegt og rangt gagnvart eldri borgurum í okkar ríka landi að halda því fram að kjaraþróun eldri borgara hafi verið eðlileg og réttlát á umliðnum árum.

Ríkisstjórn Íslands á að mæta bágri fjárhagsstöðu eldri borgara með þeim hætti að grunnlífeyririnn og tekjutryggingin nái sama hlutfalli af meðaldagvinnulaunum verkamanna í fyrsta áfanga breytinga eins og þeir höfðu árið 1991 þegar skerðingarnar hófust fyrir alvöru. Til þess að það megi nást þarf grunnlífeyririnn og tekjutryggingin með eingreiðslum að hækka samtals um rúmar 13 þús. kr. á mánuði — til þess eins að halda sama hlutfalli og var árið 1991. Engu að síður hefur kakan verið að stækka á umliðnum árum, eins og margoft hefur komið fram í máli stjórnarliða. Til staðfestingar á máli mínu er rétt að minna á að hlutfall grunnlífeyris og tekjutryggingar af lágmarkslaunum verkafólks var árið 1995 tæp 75% og nú, tæpum 10 árum síðar, þ.e. samkvæmt áætlun fyrir árið 2004, var hlutfallið komið niður í tæp 62%.

Þegar tali mínu víkur að afkomuskerðingum eldri borgara blasir einnig við ófögur sýn, hæstv. forseti. Kjör einstakra embættismanna þjóðarinnar hafa verið til umræðu að undanförnu. Styðst ég m.a. við nýlegar fréttir af kjörum sendiherra þjóðarinnar. Þó svo að laun sendiherra séu hartnær 1 millj. kr. á mánuði fá þeir margir hverjir engu að síður greiddan fullan lífeyri samhliða störfum sínum. Ekki skiptir nokkru hver pólitískur bakgrunnur embættismannanna er en sumir hafa um áratuga skeið starfað með stjórnmálaflokkum sem vilja kenna sig við jöfnuð og réttlæti.

Til eru þúsundir Íslendinga í landinu, fólks sem byggði stíflur, lagði vegi, stundaði sjómennsku, fiskvinnslu og fleiri störf, í raun fólk sem lagði sitt af mörkum með erfiði sínu við að mynda brú milli gamla fátæka bændasamfélagsins og svo nútímans eins og við þekkjum hann í dag. Hvernig má það vera að þessum þúsundum einstaklinga, stoltu og fullorðnu fólki í íslensku samfélagi, sé boðið upp á annað eins óréttlæti? Þetta sama fólk þarf að horfast í augu við þann veruleika að u.þ.b. 75% af aukatekjum þess komi til skerðingar vegna tekjutengingar við greiðslu samþykktra bóta og hárrar tekjuskattsbyrði.

Vegna yfirlýstrar stefnu ríkisstjórnarinnar um að hækka ekki skattleysismörk þannig að þau haldi raungildi sínu eins og þau voru við upphaf staðgreiðslu árið 1988 koma ekki einungis fram skiljanlegar kröfur um hækkun á grunnlífeyri og tekjutryggingu heldur einnig sú krafa að skerðingarmörk greiðsluflokka almannatrygginga hækki þannig að dregið verði verulega úr áhrifum jaðarskatta. Auk þessara augljósu skerðinga tryggingargreiðslna má einnig benda á stórhækkuð fasteignagjöld undanfarinna ára, hækkun sem munar mörgum tugum þúsunda króna hjá flestum ellilífeyrisþegum vegna hækkaðs fasteignamats eigin íbúða. Keyrir um þverbak á þessu ári.

Ríkisstjórn Íslands verður að marka heildarstefnu í málefnum aldraðra. Sú heildarstefna verður að byggja á hugmyndafræði um jafnrétti og mannréttindi, svo að ekki sé minnst á reisn og göfuglyndi ríkrar þjóðar til þeirra sem skilað hafa af sér miklu verki á langri ævi. Uppstokkun og endurskipulagning þar sem ný og heilbrigð hugmyndafræði ræður ríkjum verður að koma til á fjölmörgum sviðum sem snúa að eldri borgurum.

Búsetumál eldri borgara þarf að endurskoða en fleiri valkostum sem samrýmst geta óskum og þörfum eldri borgara þarf að mæta með einum eða öðrum hætti. Skortur á hjúkrunarrýmum er mikill vandi á höfuðborgarsvæðinu. Huga þarf að næringu og fjölbreyttu matarvali til handa öldruðum sjúklingum ásamt fjölmörgum öðrum málum, enda hefur málaflokkurinn verið í alvarlegri kreppu hjá ríkisstjórn landsins um langt árabil.

Virðulegur forseti. Í ljósi þessa legg ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. tryggingamálaráðherra:

Hefur ráðherrann í hyggju að beita sér fyrir umtalsverðri hækkun á greiðslum almannatrygginga til eldri borgara?

Hefur ráðherrann í hyggju að beita sér fyrir því að skerðingarmörk greiðsluflokka almannatrygginga hækki þannig að dregið verði verulega úr áhrifum jaðarskatta?

Hefur ríkisstjórnin ákveðið að grípa til sértækra aðgerða til að mæta bágri fjárhagsstöðu rúmlega 10 þús. eldri borgara sem voru síðast með um eða undir 110 þús. kr. brúttó í tekjur á mánuði?