131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:49]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Íslenskur skipaiðnaður á í harðri samkeppni við erlendar skipasmíðastöðvar og það hljóta að teljast alvarleg ámæli fyrir ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutann að standa þannig að útboði á löngu tímabærum viðgerðum á varðskipunum Ægi og Tý að við missum þær úr landi.

Til að kóróna verknaðinn má harðlega deila um hvort besta eða lægsta útboðinu hafi verið tekið ef tillit er tekið til álags og kostnaðar við að láta viðgerðirnar fara fram erlendis í stað þess að taka tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri og hafa framkvæmdirnar hér á landi. Hvar er byggðapólitík ríkisstjórnarinnar? Er skipaiðnaðurinn ekki nægilega stór fyrir hæstv. byggðamálaráðherra? Dugar ekkert minna en stóriðjustefna og álver til að ná athygli ríkisstjórnarinnar? Hvar er stuðningurinn við innlendan iðnað?

Þótt ótrúlegt sé stendur íslenskur skipaiðnaður faglega vel að vígi. Ótrúlegt, segi ég, þar sem iðnnám hefur staðið höllum fæti hér um langan tíma. Og þótt ótrúlegt sé stenst íslenskur skipaiðnaður samanburð við erlend tilboð frá löndum sem hafa aðgang að ódýru vinnuafli, eins og tilboð Slippstöðvarinnar sýnir. Vandamálið við útboðið og þá ákvörðun að taka ekki samanburðarhæfu tilboði Slippstöðvarinnar í stað þess pólska er að enginn þeirra þriggja ráðherra sem málið varðar telur sig bera ábyrgð á verknaðinum.

Hæstv. forseti. Ég hélt að við hefðum lært af mistökunum við útboð á viðgerðum varðskipanna fyrir þremur árum. Var sameiginleg stefnumótun iðnaðarráðuneytis og Samtaka iðnaðarins í framhaldi af því eingöngu til að friðþægja og veita íslenskum skipaiðnaði falskt öryggi? Ég spyr hæstv. byggðamálaráðherra hvort tekið hafi verið tillit til þess sem hún (Forseti hringir.) tilkynnti hér áðan um þá niðurstöðu að endurgreiða (Forseti hringir.) aðflutningsgjald og það yrði afturvirkt til 2002 (Forseti hringir.) ... þetta tilboð?