131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:40]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frjálst val langsótt, sagði hæstv. ráðherra. Ég vil halda því fram að svigrúm forráðamanna sveitarfélaganna til að ákveða tekjur sveitarfélaga sinna hafi minnkað gríðarlega mikið frá því sem áður var.

Einungis lítill hluti sveitarfélaganna þurfti að ganga alla leið í tekjuöfluninni fyrir nokkrum árum. Nú þurfa langflest sveitarfélög að ganga alla leið. Hvernig þetta var áður er að mínu viti sönnun þess að hægt er að treysta sveitarstjórnarmönnum fyrir því að geta ákveðið hversu langt á að ganga hvað þessi málefni varðar. Þarna vantar upp á að mínu viti og búa þarf til svigrúm að nýju þannig að sveitarstjórnarmenn eigi möguleika á því að ganga nógu langt til að uppfylla þær skyldur sem þeim ber hvað sveitarfélög þeirra varðar.

Hæstv. ráðherra sagði í fyrra andsvari sínu að hann vildi fara lýðræðislegri leiðir en ég hef lagt til að væru farnar. Ég vil mótmæla þessu. Ég tel að tillögur mínar um að hækka íbúalágmarkið í sveitarfélögunum séu fullkomlega lýðræðislegar, nákvæmlega jafnlýðræðislegar og ákvæðið í sveitarstjórnarlögunum sem segir að hvergi megi vera sveitarfélag með minna en 50 íbúa að lágmarki. Ég tel þess vegna að hér beri menn fyrst og fremst ábyrgð á því hvert lágmarkið er og á hverjum tíma þurfi alþingismenn að taka afstöðu til þess hvert lágmarkið eigi að vera. Ef hæstv. ráðherra finnst að íbúalágmarkið eigi að vera 50 er eðlilegt að hann hafi þá afstöðu sem hann lýsti. En ef honum finnst það ekki tel ég ekki að hægt sé að tala um það sem einhvers konar skort á lýðræðisvitund að vilja hafa annað íbúalágmark en 50.