131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[15:49]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár er útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Landhelgisgæslunnar á viðgerð á varðskipunum Ægi og Tý. Einungis 13 millj. kr. munur var á tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri og pólskrar skipasmíðastöðvar. Spurningar vakna hvort hagkvæmara hefði verið að taka tilboði Slippstöðvarinnar þar sem mikill kostnaður er því samfara að flytja varðskipin til Póllands og hafa þar eftirlit með framkvæmdinni. Ég tel ljóst að Ríkiskaup hafi vanmetið kostnaðinn sem felst í því að verkið sé unnið í Póllandi og ég hef undir höndum áætlun einkaaðila um að það mundi kosta hann 5,8 millj. kr. að flytja eitt skip til Póllands og hafa þar í slipp í þrjár vikur. Í tilfelli Landhelgisgæslunnar er um að ræða tvö skip sem munu vera úti í fjóra mánuði en einungis er reiknað með að það muni kosta svipaða upphæð, þ.e. tæpar 6 millj. kr.

Hér er því um hróplegt ósamræmi að ræða en kannski er munurinn á þessum áætlunum sá að útgerðarmaðurinn þarf að greiða kostnaðinn úr eigin vasa en skattgreiðendur í hinu tilvikinu. Þessi atburðarás leiðir því hugann óneitanlega að því hvernig við Íslendingar meðhöndlum útboð hér innan lands sem við þurfum jafnframt að auglýsa á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki jákvæður gagnvart hugmyndum sem komu fram í tillögum Samtaka iðnaðarins og iðnaðarráðuneytisins haustið 2002 varðandi opinber innkaup. Þar var lögð áhersla á að koma á formlegu samráði skipaiðnaðarins og viðkomandi stjórnvalda um framkvæmd opinberra útboða vegna kaupa á nýsmíði og/eða þjónustu. Þessi tillaga er einn liður í því að bæta samkeppnisstöðu íslensks skipaiðnaðar gagnvart erlendum keppinautum, og ekki veitir af því.

Enn fremur hefur vinna staðið yfir undir forustu Samtaka iðnaðarins með opinberum innkaupaaðilum um að vinna að sameiginlegum markmiðum um gæðamál og hvaða kröfur verði gerðar til verktaka í framtíðinni. Aðilar að þessu verkefni eru auk Samtaka iðnaðarins Ríkiskaup, Vegagerðin, Landsvirkjun, Framkvæmdasýsla ríkisins og fleiri opinberir aðilar. Vinna við þessi gæðamál stendur yfir en meðal þeirra atriða sem rætt hefur verið sérstaklega um á þessum vettvangi er að verkkaupar munu innan fárra ára gera auknar kröfur er byggjast á svonefndum ISO-staðli 9001:2000. Þó er þess sérstaklega getið að um langtímaverkefni er að ræða í þessu samstarfi og að innleiðing gæðakerfa og kröfur um vottun verði að haldast í hendur hjá aðilum markaðarins.

Þrátt fyrir þessi sameiginlegu markmið og þá ágætu vinnu sem m.a. Ríkiskaup hafa átt með Samtökum iðnaðarins henda forsvarsmenn Ríkiskaupa þessum ISO-staðli inn í umrætt útboð, sem hefur 20% vægi í því, vitandi það að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur ekki innleitt þennan staðal. Ég fullyrði að með því að gefa áðurnefndum ISO-staðli 20% vægi í útboðinu var í raun að mínum dómi ákveðið að þetta verkefni skyldi ekki unnið hér innan lands. Útboð Ríkiskaupa er því ekki í þeim anda sem einkennt hefur það samstarf sem ég hef að framan greint frá.

Það er jafnframt mikilvægt að íslensk stjórnvöld séu vakandi fyrir því hvort skipasmíðaiðnaður sé ríkisstyrktur í Evrópu. Það hefur hvorki verið sannað né afsannað og mikilvægt að komast til botns í því. Íslenskur skipasmíðaiðnaður er ekki að biðja um ríkisstyrki, heldur að iðnaðurinn geti stundað samkeppni við erlenda keppinauta á grunni jafnræðis og að þeir fái sanngjarna og jákvæða meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá hljótum við að spyrja okkur hvort það sé pólitískur vilji fyrir því að halda verkefnum eins og viðgerðum á varðskipunum innan lands.

Ég fullyrði að pólitískur vilji er til staðar í þeim efnum. Ég vitna til ummæla nokkurra hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar í því samhengi. Ríkiskaup ákváðu að hafna öllum tilboðum í viðgerðirnar á varðskipunum, lokuðu sig inni með Pólverjunum og sömdu við þá án þess að tala eitt orð við forsvarsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri. Því miður var ekki vilji til þess hjá forsvarsmönnum Ríkiskaupa en það er ljóst að pólitískur vilji er fyrir því að vinna slík verk hér innan lands.

Hæstv. forseti. Er nema von að spurt sé: Hver ræður hér för?