131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:06]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst hálfraunaleg óhamingja hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar á þessum fallega degi en ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja umræðuna hér. Tilefnið er ærið, það lýtur ekki einungis að útboði á viðgerðum þessara tveggja skipa núna, heldur einnig árið 2001, eins og hér hefur komið fram. Í rauninni lýtur þetta mál ekki bara að framtíð íslensks skipaiðnaðar, heldur almennum leikreglum við útboð á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar af leiðandi er mikilvægt að velta upp nokkrum grundvallarspurningum í tengslum við það. Málið er ærið.

Hér hefur komið fram, og má taka undir það, spurningin um af hverju þessum nýja ISO-staðli hafi verið bætt inn í útboðið að ástæðulausu og í rauninni þvert gegn því samráði sem verið hefur í gangi við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunaaðila. Við hljótum líka að spyrja hvort við séum kaþólskari en páfinn í að túlka þær leikreglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Við hljótum enn fremur að spyrja um samráð Ríkiskaupa við þau fyrirtæki og Samtök atvinnulífsins sem þetta mál snertir, og snertir í rauninni íslenskan vinnumarkað almennt. Við hljótum líka að spyrja okkur hvort verið geti að erlendar skipasmíðastöðvar eða almennt erlend fyrirtæki sem eru að reyna að seilast inn á þennan markað okkar, íslenska markaðinn, séu að misnota opinbera styrki og þar með að skekkja samkeppnisstöðuna. Með öðrum orðum, eru leikreglur almennt nógu skýrar?

Yfir þetta þarf að fara og ég trúi því að hæstv. ráðherra sem og hinn virðulegi formaður iðnaðarnefndar muni skoða þetta eins og fram hefur komið hér í umræðunni. Það er full ástæða til þess því að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er í húfi.