131. löggjafarþing — 97. fundur,  21. mars 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[19:40]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins.

Með 9. gr. laga nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, var stofnaður sérstakur sjóður, Vöruþróunar- og markaðssjóður síldarútvegsins, og hljóðar greinin þannig, með leyfi forseta:

„Stofna skal sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun. Stofnfé sjóðsins skal vera 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.

Sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár fyrir stofnunina sem skal staðfest af dómsmálaráðuneyti, sbr. lög nr. 19/1988.“

Sjóðurinn var stofnaður í ágúst 1998 með staðfestri skipulagsskrá og í samræmi við hana tilnefndu félög síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi fjóra menn í stjórn sjóðsins. Sjóðurinn lýtur alfarið stjórn síldarútvegsmanna, enda er hann byggður upp fyrir það fé sem þeir greiddu til síldarútvegsnefndar af verðmæti útfluttra síldarafurða á sínum tíma.

Stjórn sjóðsins telur að hagsmunir síldarútvegsmanna liggi í fleiru en vöruþróun og öflun nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Þá hafa tiltölulega fáir aðilar sótt um styrki úr sjóðnum frá stofnun hans. Því hefur stjórnin lagt til við sjávarútvegsráðuneytið að verksvið sjóðsins verði víkkað. Er hér lagt til að nýjum málslið verði bætt inn í ákvæðið þannig að stjórn sjóðsins verði almennt heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Er það í samræmi við vilja stjórnar sjóðsins.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði frumvarpinu vísað til hv. sjávarútvegsnefndar.