131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir álit minni hluta sjávarútvegsnefndar. Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta mál væri eins vaxið og raun ber vitni og hér kemur fram og hefur verið gerð vel grein fyrir, að ekkert hefur verið gert með þann vilja Alþingis sem samþykktur var samhljóða á 125. löggjafarþingi, að menn reyndu að bæta fyrir syndir sínar sem orðnar voru. Í raun og veru hafði átt sér stað skelfilegt menningarsögulegt slys í þeim efnum að menn höfðu sökum einhverrar sjúklegrar tortryggni í garð fiskiskipa sem fengu að vera til áfram, jafnvel uppi á þurru landi, komið því inn í hausinn á sér að það væri nauðsynlegt til áframhaldandi þróunar eða til að festa enn betur í sessi kvótakerfi við stjórn fiskveiða að farga skipum sem ekki væru með veiðiheimildir. Svo mikið var offorsið í þessum efnum að gullfalleg og menningarlega verðmæt skip voru brennd á báli, söguð í sundur eða fargað með einhverjum hætti. Þetta jaðraði við að vera hálfgerðar bókabrennur í nútímanum sem þarna fóru fram, auðvitað í tómu tilgangsleysi því að sjálfsögðu var hægt að ganga tryggilega frá því með ýmsum öðrum hætti að viðkomandi skip, sem hefðu verið úrelt sem fiskiskip, mættu vera til áfram og til annarra nota og gengið rækilega frá því, t.d. með svipuðum hætti og þegar fasteignir uppi á landi hafa verið úreldar, sláturhús eða fiskvinnslustöðvar, að þinglýst sé á þeim kvöðum að þau megi þá ekki sinna þeim verkefnum áfram.

Slík var tortryggnin í þessu tilviki hvað varðaði fiskiskipin að svona var að málum staðið um langt árabil. Afleiðingin var sú að við töpuðum í stórum stíl stórmerkilegum hluta af sjávarútvegs- og atvinnusögu okkar, máttum þó síst við því vegna þess að staðreyndin er sú að Íslendingar hafa staðið sig illa í því að varðveita skip frá fyrri tíð. Frændur okkar Færeyingar eiga t.d. tvær ef ekki þrjár siglingafærar skútur frá skútuöldinni. Hér tekst varla að verja það skemmdum sem er uppi á þurru landi þar sem er Sigurfari.

Við höfum t.d. ekki borið gæfu til þess að varðveita í upprunalegri mynd sinni nýsköpunartogara eða einhvern af stóru síðutogurunumsem ollu byltingu í atvinnusögu þjóðarinnar og svo mætti áfram telja. Sárgrætilegast er þó að sjá að tréskipin hafa farið þessa leið í stórum stíl, báta og minni trébáta sem hafa að geyma bæði svæðisbundna menningarlega áherslu hvað varðar bátalag og annað því um líkt og bera vitni um handbragð og iðnað sem var á sinni tíð í fjölmörgum byggðum landsins.

Sem betur fer má segja einstöku hetjusögur af því að menn hafa með útsjónarsemi og dugnaði og ýmsum ráðum bjargað heilmiklu. Það má t.d. nefna það afrek sem hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling á Húsavík hefur unnið með því að bjarga einum fjórum, fimm fallegum eikarbátum, sem ella hefðu sjálfsagt allir tapast, og gera úr því arðsama atvinnugrein í leiðinni þannig að það verður ekki á betra kosið.

Einstöku menn, m.a. sá sem hér talar, eru ekki alveg saklausir af því að hafa hjálpað til í þeim efnum. Við völdum þá leið að bjarga merkilegum bátum með því að selja þá til útlanda, a.m.k. á pappírnum. Þannig var ágætur plankabyggður eikarbátur á ónefndum stað á landsbyggðinni skyndilega skráður sem Dúna II í Málmey og sigldi undir því nafni og ber það sennilega enn, einfaldlega vegna þess að það var eina leiðin til að bjarga skipinu undan söginni eða bálinu en mega áfram nota það og hafa það á sjó og sýna því sóma.

Ef maður héldi enn lengra áfram, virðulegi forseti, sem ég veit að væri gaman af því að við höfum nógan tíma þær hræður sem eftir erum við þingstörf á þessum síðasta degi fyrir páska, þá mætti náttúrlega tengja þetta við þann sorgaratburð þegar bátasafn Þjóðminjasafnsins brann. Það er því ekki aldeilis þannig að þessi saga hjá okkur Íslendingum hafi verið áfallalaus. Hún er satt best að segja alveg hörmuleg á köflum þegar allt er lagt saman. Við höfum orðið fyrir stóráföllum af því tagi að Þjóðminjasafnið missti stóran hluta af verðmætu safni sínu á þessu sviði. Þar fóru náttúrlega róðrabátar og enn smærri skip kannski en við erum aðallega að tala um hér og eldri, þannig að það eru stór skörð í þá sögu. Þess þá heldur að reyna að halda utan um það sem eftir er og það er stórkostlega ámælisvert að menn skuli standa frammi fyrir því einum fimm árum síðar að bókstaflega ekkert sé gert með afdráttarlausa samþykkt Alþingis í þessum efnum.

Ég fer fram á það, virðulegur forseti, að áður en umræðunni ljúki verði hæstv. sjávarútvegsráðherra inntur eftir því eða svari til um það, hafi hann ekki gert það við 1. umr. málsins sem ég veit ekki hvort var, hvort það sé virkilega ætlunin að hafa algerlega að engu vilja Alþingis.

Þá finnst mér líka að það eigi að bera þannig að að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu um að breyta fyrri afstöðu sinni en ekki að fara þessa aumingjalegu fjallabaksleið að gera ekkert og koma svo allt í einu og leggja til að öllum fjármunum verði ráðstafað þannig að þetta sé búið og gert og ekki um neitt að fást í þeim efnum.

Eins og hér kom ágætlega fram í máli ræðumanns á undan mér, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, er fiskveiðistjórnarkerfið og sjávarútvegsbatteríið svo sekt í málinu að mér finnst að menn ættu að sjá sóma sinn í að reyna að bæta ráð sitt þó í litlu sé og sýna einhver merki iðrunar og að menn hafi séð að sér og séð hversu óskynsamlegt eða a.m.k. óheppilegt þetta var.

Allir eru náttúrlega sammála um að það er engin einasta ástæða fyrir þessu lengur, enda kerfið sem slíkt ekki við lýði og engum dettur í hug í dag að amast við því þó að skip séu á skrá án þess að þau hafi fiskveiðileyfi eða veiðiheimildir. Sem betur fer er búið að endurskoða þá hluti alla og nú breytir það ekki neinu heldur eru veiðiréttindin sjálfstæð í þessu tilviki og geta eins og kunnugt er færst á milli skipa og þau má kaupa á skip ef þau á annað borð eru haffær. Allar úreldingarreglur og öll sú della sem mætti margt um segja er því fyrir bí og farið hefur fé betra.

Ein enn hörmungarvitleysan sem menn gerðu í kerfinu var þegar menn stóðu í þessu úreldingarstímabraki um árabil, bjuggu til viðbótarverðmæti eða viðbótarþröskuld í formi þess að rúmmetrar í skipum voru söluvara. Síðan var kerfið allt í einu afnumið eiginlega án nokkurrar aðlögunar þannig að útgerðir sem höfðu lent í skipakaupum árin eða mánuðina þar á undan urðu fyrir stórfelldu fjárhagstjóni og töpuðu fyrir dómstólum málum þar sem þær voru að reyna að leita réttar síns í þeim efnum að þau fengju einhverja lágmarksaðlögun. Ég þekki mætavel slík mál bæði í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn þar sem útgerðir höfðu keypt stór skip og úreldingin ein eða rúmmetrarnir einir í skipunum, til viðbótar verðmætinu sem í tækinu voru fólgin og veiðiheimildum, skiptu hundruðum milljóna. Það var einfaldlega þannig að í stórum þúsund brúttórúmlesta skipum eða þaðan af stærri var úreldingin svokallaða ein og sér heilmikið verðmæti.

Öll þessi steypa er nú þannig, herra forseti, að ég held að flestir ættu að vera því fegnastir að þurfa ekki að vera að rifja hana upp, en reyna þá að gera gott úr hlutunum eftir því sem kostur er og liður í því fyndist mér vera að menn stæðu myndarlegar að málum en hér er lagt til.

Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra getur ekki verið við umræðuna áður en henni lýkur óska ég a.m.k. eindregið eftir því að 3. umr. fari ekki fram fyrr en að viðstöddum sjávarútvegsráðherra. Að vísu yrði þá búið að reyna á lyktir þeirrar breytingartillögu sem hér er flutt, sem mér finnst full hógvær ef eitthvað er, ég hefði helst viljað taka meira af peningunum í varanlegan sjóð til að styðja við bakið á góðum málefnum af þessu tagi. Ég held að það hafi ekki bara menningar- og sjávarútvegssögulegt gildi heldur hefur það sýnt sig að slíkt getur verið undirstaða hinnar bestu atvinnustarfsemi. Það er einfaldlega þannig að gömul skip eru vinsæl í ferðaþjónustu til hvalaskoðunar, veitingarekstrar á sjó o.s.frv. Þjóðirnar í kringum okkur eru að bjarga og varðveita stóran hlut af gamla skipakosti sínum af þessu tagi einmitt með því að nýta hann sem tæki í nýjum atvinnugreinum. Á Óslófirðinum skipta t.d. gamlir bátar, skútur og seglskip tugum sem eru í blómlegum rekstri í ferðaþjónustu þar og eins og t.d. dæmið sem ég nefndi frá Húsavík er ekkert því til fyrirstöðu að slíkt geti gerst hér. Það gæti verið hvati og hjálpað til í þeim efnum ef menn gætu sótt styrki í einhvern sjóð til að komast af stað við að bjarga gömlum skipum.

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að hæstv. sjávarútvegsráðherra er ekki í húsinu en forseti mun koma þeim skilaboðum áleiðis að hv. 5. þm. Norðaust. vilji eiga við hann orðastað í 3. umr.)